Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 21. mars 2005

Sú ákvörðun alsherjarnefndar Alþingis að mæla með því að þingið veiti Bobby Fischer íslenzkan ríkisborgararétt er að mínu mati algerlega út í hött. Forsendurnar fyrir þeirri ákvörðun eru í raun engar og alls ekki nægar til að stofnað verði til einhverrar sérmeðferðar í þessu tilfelli. Ég hef alltaf haft vægast sagt miklar efasemdir um að réttlætanlegt sé að t.d. ýmsum erlendum íþróttamönnum sé veittur íslenzkur ríkisborgararéttur með það fyrir augum að þeir keppi fyrir Íslands hönd á erlendum vettvangi. Ég tel það afar hæpnar forsendur og að almennt séð eigi eitt einfaldlega að ganga yfir alla í þessum efnum eins og öðrum. Ekki er réttlætanlegt að sumir fái slíka sérmeðferð af hálfu hins opinbera sem öðrum stendur ekki til boða.

Staðreyndin er sú að Bobby Fischer uppfyllir einfaldlega ekki þau almennu skilyrði sem sett eru fyrir veitingu íslenzks ríkisborgararéttar og er raunar langt frá því. Það væri strax annað ef hann ætti íslenzka konu eins og raunin var með Vladimir Azhkenazy, hljómsveitarstjóra, á sínum tíma. Tengsl Fischers við Ísland eru hins vegar í raun sama og engin. Jú, hann á vissulega góðan vin hérna, Sæmund Pálsson, en það sama gildir sjálfsagt um ófáa einstaklinga erlendis og er vart ávísun á veitingu íslenzks ríkisborgararéttar. Og jú, hann háði ennfremur skákeinvígi hér á landi árið 1972 við Boris Spassky sem var óneitanlega mikil auglýsing fyrir Ísland erlendis.

Hins vegar er raunin sú að Fischer vildi ekki há einvígið á Íslandi heldur í Júgóslavíu. Spassky vildi hins vegar að einvígið færi fram hér á landi. Var tvísýnt um hríð hvernig það mál færi og var ekki fyrr en að sigurlaunin voru tvöfölduð sem Fischer lét til leiðast og samþykkti að tefla hér. Það að „einvígi aldarinnar“ skyldi fara fram hér á landi 1972 var því svo langt því frá Fischer að þakka. Við skuldum honum ekki nokkurn skapaðan hlut í þeim efnum. Ef við ættum að þakka einhverjum fyrir það þá er það Spassky.

Ísland sem slíkt skiptir Fischer augljóslega engu máli. Mér skilst að sl. haust, þegar hugmyndin kom upp um það að íslenzk stjórnvöld gætu hugsanlega hlutast til um mál hans með einhverjum hætti, hafi hann hafnað því og sagt að hann vildi ekki koma til Íslands m.a. vegna þess að hér væri alltof kalt. Þá hefur hann hugsanlega verið að vonast til þess að einhver önnur ríki myndu bjóðast til beita sér í máli hans. Ennfremur hefur komið fram að Fischer hafi sagt að hann myndi aldrei koma hingað til lands á meðan hér væri bandarísk herstöð. En það er greinilega komið annað hljóð í strokkinn núna.

Ef Ísland skipti einhverju máli í huga Fischers hefði hann án efa komið oftar til landsins en einu sinni – fyrir rúmum 32 árum síðan. Mikil áherzla hefur verið lögð á viðskap þeirra Sæmundar og Fischers undanfarna mánuði og hefur dramatíkin í kringum það á stundum verið ansi mikil. Furðulegt er í því ljósi að þeir félagar skuli ekki hafa hizt í rúm 32 ár þrátt fyrir að tækifærin hafi klárlega verið til staðar. Allavega hefði Fischer verið í lófa lagið að hitta Sæmund á þeim tuttugu árum sem liðu frá einvíginu 1972, þegar þeir kynntust, og fram til ársins 1992 þegar Fischer braut gegn viðskiptabanni Sameinuðu þjóðanna á Júgóslavíu með þátttöku í öðru skákeinvígi við Spassky.

Sem kunnugt er er þetta mál allt í kringum Fischer tilkomið vegna brots hans gegn viðskiptabanninu á Júgóslavíu sem m.a. náði yfir íþróttaviðburði. Fyrir einvígið var Fischer varaður við því með formlegum hætti af utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna að þátttaka í skákmótinu væri brot gegn viðskiptabanninu en hann mun hafa haft það að engu og svarað með því að hrækja á bréfið frá ráðuneytinu á blaðamannafundi. Í framhaldi af því gáfu bandarísk stjórnvöld út ákæru á hendur Fischer. Það er því alveg ljóst að hann vissi vel hvað hann var að gera og hvað hann var að biðja um.

Fólk getur haft sína skoðun á því hvort rétt hafi verið að viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna næði yfir íþróttaviðburði eða hvort bannið hafi átt rétt á sér yfir höfuð. En það breytir ekki þeirri staðreynd að Fischer braut klárlega gegn því og hann vissi nákvæmlega hvað hann var að gera. Hann verður því einfaldlega að taka afleiðingum gjörða sinna eins og allir aðrir. Svo einfalt er málið.

Hægt væri að fjalla í mun lengra máli um það hversu fáránleg ákvörðun alsherjarnefndar er og á hversu vægast sagt hæpnum forsendum hún er byggð ef forsendur skyldi kalla. Skoðanir Fischers eru t.d. alveg sérstakur kafli út af fyrir sig. Þegar árásin var gerð á Tvíburaturnana í New York árið 2001 mun hann t.a.m. hafa fagnað og svívirðileg ummæli hans um gyðinga eru fyrir neðan allar hellur svo eitthvað sé nefnt.

En málið er þó ekki búið enn og verður fróðlegt að vita hvert framhald þess verður.

Hjörtur J. Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband