Leita í fréttum mbl.is

Tóbaksvarnarlögin – frelsisskerðing eða nauðsynlegar úrbætur?

Fram hefur komið að heilbrigðisráðherra hefur í hyggju að leggja nú á haustþingi fram frumvarp til breytinga á lögum nr 6/2002 um tóbaksvarnir. Líklegt er að lagt verði til í frumvarpinu að reykingar verði bannaðar með öllu á opinberum stöðum, þar með talið kaffihúsum og veitingastöðum. Ólíkt mörgum öðrum sem telja sig til hægri í stjórn-málum telur undirritaður að sterk rök hnígi til slíkra lagabreytinga og er almennt sáttur við mörg af þeim skrefum sem stigin hafa verið á undanförnum árum í tóbaksvörnum.

Samkvæmt nýlegri úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands nemur árlegur kostnaður samfélagsins af reykingum 20-21 milljarði króna, þar af var kostnaður við sjúkrahús-vistun tæpir 3,5 milljarðar árið 2000 og heildar heilbrigðiskostnaður rúmir 4,8 milljarðar. Þá hefur komið fram að í heiminum látast um 5 milljónir manna árlega af sjúkdómum sem rekja má til reykinga, þar af um 400 þúsund manns af völdum óbeinna reykinga.
Á Íslandi eru árleg dauðsföll af völdum óbeinna reykinga 30-40 talsins. Þá eru ótalin önnur óþægindi og heilsufarsleg vandamál þolenda óbeinna reykinga, sem ekki draga fólk til dauða.

Ég vil byrja á að taka fram að ég tel að sjálfsögðu að hverjum og einum sé, og eigi að vera, í sjálfsvald sett hvort hann kýs að reykja eða ekki. Reykingar eru hins vegar þess eðlis að þær geta haft umtalsverð áhrif á aðra en þann einstakling sem tóbaksins neytir, eins og ofangreindar tölur bera með sér. Þetta atriði tel ég vera algert grundvallaratriði í þessari umræðu. Reykingar í viðurvist annarra einstaklinga hafa skaðleg áhrif á þá en ekki reykingamanninn einan.

Sem hægrimaður er ég þeirrar skoðunar að löggjafinn eigi einungis að skerða frelsi einstaklinga, að almannaheill eða réttindi annarra einstaklinga knýi á um slíkt.
Ég tel að þau sjónarmið eigi við í þessu máli. Það að anda að sér hreinu lofti eru mikilsverð lífsgæði – sem ekki má vanmeta. Mörgum brá í brún þegar lög nr 6/2002 voru sett og töldu að þar væri löggjafinn að seilast allt of langt með boðum og bönnum. Ég vil þó minna á að mýmörg dæmi eru um það í löggjöfinni að skorður séu settar við athöfnum manna til að tryggja réttindi annarra og vegna almannaheilla. Nægir að nefna það að öll refsilöggjöfin er reist á slíkum sjónarmiðum. Ég held að velflestir séu nú orðnir allsáttir við þær breytingar sem urðu með tilkomu nýrra tóbaksvarnarlaga árið 2002.

Þann 19. október síðastliðinn birtist grein á frelsi.is eftir Ásgeir Helga Reykfjörð Gylfason. Ásgeir er í hópi anstæðinga þess að umræddar lagabreytingar eigi sér stað
og heldur því fram í grein sinni að í þeim löndum þar sem bann við reykingum á veitingastöðum er þegar við lýði hafi eigendur veitingahúsa misst spón úr aski sínum
og staðirnir jafnvel lagt upp laupana. Nýleg könnun sem gerð var hérlendis leiðir hins vegar í ljós að 86% svarenda telja að þeir færu jafnoft eða oftar á veitinga- eða kaffihús ef þau væru með öllu reyklaus. Sama könnun leiddi í ljós að 75% svarenda eru andvíg reykingum á slíkum stöðum og – það að einungis 8% gesta slíkra veitingastaða reyki meðan á dvöl þeirra stendur. Það er því ekkert sem bendir til að ástæða sé til að óttast um hag þeirra sem reka veitinga- og kaffihús, komi umrædd lagabreyting til framkvæmda.

Menn hafa réttilega bent á að engin ,,viðveruskylda” er á veitingahúsum. Mönnum er í sjálfsvald sett hvort þeir venja þangað komur sínar. Þá telur Ásgeir ennfremur í fyrr-nefndri grein að markaðurinn sjái til þess að ríkið eigi ekki – og þurfi ekki – að koma að svona málum. Í þessu sambandi er rétt að hafa hugfast að það að sækja veitinga- og kaffihús er snar þáttur í okkar menningu. Menn sækja gjarnan kaffihús í og veitingastaði í góðra vina hópi. Menn velja sér ekki vini eftir því hvort þeir reykja, heldur á öðrum forsendum. Sömuleiðis velja hópar sér oftast áfangastaði á öðrum forsendum en þeim hvort þar sé reykt eða ekki. Hópar tvístrast ekki og velja sinn hvern veitingastaðinn eftir því hvort þar ríki reykingabann eður ei. Það er því vandséð að veitingamenn sjái sérstaka ástæðu til að eiga frumkvæði að reykingabanni – þó svo að ósennilegt sé að slíkt bann væri þeim til tjóns.

Við getum spurt okkur hvor eigi að vega þyngra, réttur reykingamannsins til að reykja þar eða réttur þess sem ekki reykir til að anda að sér hreinu lofti. Menn eru misjafnlega viðkvæmir fyrir tóbaksreyk. Á astmasjúklingur sem þolir reykinn illa t.d. að sæta því að geta aldrei farið með félögum sínum á kaffihús og að geta ekki tekið þátt í almennu félagslífi vegna aðsteðjandi hættu sem auðveldlega má fyrirbyggja? Það er þó óvíst að veitingamenn sjái sér endilega hag í því að banna reykingar af sjálfsdáðum. Staðreyndin er nefnilega sú að flestir þeirra sem ekki reykja láta sig frekar hafa það að vaða reykinn, en að sitja heima, þrátt fyrir að þeir tækju því tvímælalaust flestir fagnandi að vera lausir við hann. Þá má benda á að það er auðveldara fyrir reykingamanninn að stíga út fyrir annað kastið til að fá sér smók en fyrir þann sem ekki reykir og vill forðast reykinn að halda niðri í sér andanum, eða standa fyrir utan, næturlangt! Niðurstaða mín er sú að fyllilega sé réttlætanlegt að láta rétt þess reyklausa vega þyngra.

Vera kann að ný lög muni fela í sér takmarkanir á reykingum í návist barna, jafnvel inni
á heimilum fólks. Takmarkanir á athöfnum manna þegar börn eru annars vegar, eiga sér mörg fordæmi í íslenskri löggjöf. Í 2. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2000 er t.a.m. kveðið á um skyldu foreldra til að ,,búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna”. Í 98. og 99. gr. eru síðan ákvæði sem leggja þungar refsingar við tilteknum athöfnum gagnvart börnum. Þessi ákvæði gilda hvort sem athafnirnar eiga sér stað inni á einkaheimilum manna eða annars staðar. Fleiri dæmi mætti nefna. Slíkar takmarkanir eru settar í því skyni að ljá börnum atbeina ríkisvaldsins þeim til verndar, þar sem þau eru ófær um að verja hagsmuni sína sjálf. Það er því einfaldlega alrangt sem sumir hafa látið liggja að, að um einsdæmi væri að ræða kysi löggjafinn að ,,seilast inn á heimili fólks” með áðurnefndum hætti. Það væri fróðlegt að vita hvort áðurnefndir menn vildu afnema þessar lagagreinar með sömu rökum og beitt er gegn umræddum breytingum á tóbaksvarnarlöggjöfinni.

Með sömu rökum og þeir beita sem ekki mega til þess hugsa að frelsi til reykinga sé skert, má færa rök gegn banni við mengun drykkjarvatns, banni við losun spilliefna út í umhverfið, banni við ýmiss konar ofbeldisbrotum og fleiru. Svo góður sem markaðurinn er til síns brúks hefur ekki verið sýnt fram á með sannfærandi rökum að hann bjóði lausnir við ofangreindum vandamálum. Slíkar röksemdir eru alveg af sama meiði og röksemdir þess fámenna hóps manna sem berst fyrir lögleiðingu eiturlyfja. Það væri fróðlegt að vita hvort Ásgeir sé í þeim hópi og þorri þjóðarinnar sé því að hans mati ,,eiturlyfjafasistar” rétt eins og hann kýs að kalla stuðningsmenn tóbaksvarnarlaganna ,,reykingafasista”. Ég geri nú alls ekki ráð fyrir að svo sé þegar betur er að gáð. En hugmyndafræðin, svo góð sem hún er, má ekki bera skynsemina ofurliði.

Þorsteinn Magnússon


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband