Leita í fréttum mbl.is

Þjóðhátíðarpistill

Íslensk þjóðernishyggja er og verður alltaf tengt órjúfanlegum böndum við ímynd þjóðveldisins og hefur hún því iðulega byggst á endurreisn þess í einhverri mynd. Einkenni þessa gullaldartíma sem miðað er við byggist í huga þjóðarinnar á sjálfákvörðunarrétti hennar og sjálfsstæði sem við glötuðum en öðluðumst á ný eftir langa baráttu, á þingræðinu sem við glötuðum en endurreistum í áðurnefndri baráttu og því frelsi einstaklingsins sem óneitanlega var hornsteinn þess samfélags sem hér blómstraði á þjóðveldisöld. Auðvitað einnig á virðingu fyrir sögunni, menningunni, tungunni og hefðunum sem orðið hafa einkennandi fyrir íslenska þjóðmenningu í gegnum árin.

Vissulega var þetta frelsi ekki allra, en jafnframt var óvíða jafn frjálst samfélag nokkurs staðar í nálægum löndum eins og hér ríkti á þessum tíma, og vissulega var þjóðveldið ekki hreint lýðræði eins og við skiljum það í dag, en ímynd þess í okkar huga er eftir sem áður jafn verðmæt og kröftugur leiðarvísir enn í dag líkt og á hápunkti sjálfsstæðisbaráttunnar. Það er nauðsyn hverri þjóð að hafa sterka sjálfsmynd byggða á traustum grunni í sögu hennar, menningu og upplifun, sem sameinar hana, sérstaklega á góðum stundum eins og í dag er við fögnum á sjöunda áratug íslensks sjálfstæðis.

Þessi sjálfsmynd og þessi sameiginlegu gildi eru í hættu vegna ósanngjarns samanburðar íslenskrar þjóðernishyggju, eða föðurlandshyggju, við andlýðræðisleg, fasísk öfl sem upp komu um miðja síðustu öld og misnotuðu sér þær tilfinningar sem þjóðerniskenndin vekur í brjóstum manna. Hægt er að misnota allt, en því fer fjarri að slík notkun réttlæti að hugmyndinni um þjóðina sé varpað á bálköst sögunnar og skipt út fyrir eitthvað annað, hvort sem það sé fjölmenningarhyggju, pan-evrópuhyggju eða heimsborgara- eða stéttasjálfsmyndir.

Þau grundvallargildi sem íslenskt þjóðfélag byggir á verður að vera hafið yfir flokkadrætti og dægurþras, og hefur það tekist að mestu hérlendis sem af er, þó ákveðnar blikur séu á lofti. Það minnir okkur á að sjálfsstæðisbaráttunni lýkur í raun aldrei alveg. En hvort sem Íslendingar séu til vinstri eða hægri í efnahagsmálum, frjálslyndir eða íhaldssamir í siðferðis- og samfélagsmálum þá verðum við að standa vörð um áðurnefnd grundvallargildi, lýðræðið, sem löngum hefur verið í formi þingræðislegs valds Alþingis, sjálfsstæðið, sjálfsstæði einstaklingsins og þjóðarinnar og þjóðmenningarinnar, þar af hið ástkæra ylhýra, sem okkur ber skylda til að varðveita og miðla áfram til komandi kynslóða Íslendinga.

Því er okkur brýn nauðsyn að tryggja að þær kynslóðir sem alast upp á Íslandi í framtíðinni beri þessa sjálfsmynd í brjósti og haldi í heiðri hin sameiginlegu grundvallargildi, sama hver uppruni þeirra er, kyn, húðlitur eða annað. Okkur, líkt og öðrum vestrænum löndum, er mikil nauðsyn að tryggja að nýjir íbúar landsins og þá sérstaklega afkomendur þeirra séu og verði af hug og hjarta fyrst og fremst Íslendingar. Við megum ekki tapa niður þeim árangri að þúsundir Íslendinga dagsins í dag eigi sér erlenda forfeður en líta samt sem áður fyrst og fremst á sig sem Íslendinga. Að hér myndist aðskilin samfélög sem búi hlið við hlið í landinu án nauðsynlegs samgangs líkt og við sjáum allt of víða í Evrópu, Kanada og víðar vegna fjölmenningarhugmyndarinnar er algerlega óásættanlegt, við megum ekki við því að þriðja eða fjórða kynslóð innflytjenda til landsins líti enn á sig sem aðkomumenn í heimalöndum sínum.

Það er því spurning hvort það sé nóg að við stöndum í pontu og tölum fjálglega um þjóðina, menninguna og grunngildin einu sinni á ári, á þeim hátíðisdegi sem nú við fögnum, en það er þó að minnsta kosti ágætis áminning um að enn er meira sem sameinar okkur heldur en sundrar. Tryggjum að svo verði áfram, fögnum þjóðhátíðardegi okkar með stolti í hjarta og miðlum þessum samhug stolt áfram til komandi kynslóða, allra Íslendinga hvað svo sem forfeður okkar hafa búið lengi í landinu.

Höskuldur Marselíusarson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband