Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 11. apríl 2005

Svo virðist sem meirihluti franskra kjósenda sé orðinn afhuga fyrirhugaðri stjórnarskrá Evrópusambandsins ef marka má síðustu skoðanakannanir um málið þar í landi. Meirihlutinn er þó enn tæpur þannig að allt getur gerzt þann eina og hálfa mánuð sem eftir er í að þjóðaratkvæði fari fram um málið í Frakklandi. Þessi staða mála þykir einkum athyglisverð í ljósi þess að fyrir aðeins nokkrum vikum síðan þótti forskot stuðningsmanna stjórnarskrárinnar nokkuð öruggt. En síðan hefur sá stuðningur smám saman verið að dragast saman.

Jacques Chirac, Frakklandsforseti, virðist því vera að upplifa það sama og forveri hans í embætti Françoise Mitterand árið 1992 þegar Frakkar greiddu atkvæði um Maastricht-sáttmála Evrópusambandsins í þjóðaratkvæði. Þegar Danir höfðu hafnað sáttmálanum ákvað Mitterand að sýna að Frakkar styddu hann heilshugar og setti málið í þjóðaratkvæði í Frakklandi. Taldi hann sig ekki vera að taka neina áhættu enda höfðu skoðanakannanir ítrekað sýnt að mikill meirihluti Frakka styddi sáttmálann. Niðurstaðan var hins vegar önnur og var sáttmálinn samþykktur með aðeins 51% atkvæða.

Þetta ferli hefur reyndar ósjaldan átt sér stað í þeim fáu tilfellum sem almenningi aðildarríkjum Evrópusambandsins hefur af verið gefinn kostur á að segja álit sitt á auknum samruna innan þess. Þ.e. að ákveðið hefur verið að halda þjóðaratkvæði um málið vegna þess að skoðanakannanir hafi ítrekað sýnt niðurstöðu þóknanlega forystumönnum Evrópusambandsins. Síðan hafi barátta stuðningsmanna og andstæðinga samrunans hafizt og niðurstaðan verið að samrunanum hefur verið hafnað.

Nefna mætti t.d. niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Svíþjóð um evruna haustið 2003 sem gott dæmi um þetta. Þegar Göran Persson, forsætisráðherra Svía, ákvað að leggja það í dóm sænskra kjósenda hvort taka ætti upp evruna í Svíþjóð eða ekki taldi hann sig ekki vera að taka neina áhættu með því þar sem skoðanakannanir höfðu ítrekað sýnt fram á að mikill meirihluti Svía styddi það. Síðan fór kosningabaráttan í gang og niðurstaðan þjóðaratkvæðagreiðslunnar nokkrum mánuðum síðar var að Svíar höfnuðu evrunni með afgerandi hætti.

Einmitt af þessum sökum leggur Persson ekki í að láta kjósa um fyrirhugaða stjórnarskrá Evrópusambandsins í Svíþjóð eins og evruna. Höfnun á henni líka yrði vitanlega hræðilegt pólitískt áfall fyrir hann. Helzta opinbera skýring Perssons á þessari ákvörðun sinni er að málið sé einfaldlega of flókið fyrir sænska kjósendur. Sænskir gárungar segja Svía klóra sér í höfðinu og spyrja sig hvort málið sé eitthvað flóknara fyrir þá en íbúa þeirra aðildarríkja Evrópusambandsins sem fá að kjósa um það.

Einmitt vegna þessarar reynslu hafa forystumenn Evrópusambandsins lagt áherzlu á að reynt væri að tryggja sem styzta kosningabaráttur í þeim aðildarríkjum sambandsins þar sem ákveðið hefur verið að leyfa almenningi að kjósa um málið. Tilgangurinn er að reyna að sjá til þess að andstæðingar fyrirhugaðrar stjórnarskrár Evrópusambandsins hafi sem allra minnst svigrúm til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Aðdragandi þjóðaratkvæðagreiðslunnar um málið á Spáni í febrúar sl. var lítill sem enginn og sama er t.a.m. að segja um Frakkland.

Annað er hins vegar uppi á teningnum í Bretlandi þar sem meirihluti þeirra sem afstöðu hafa tekið í skoðanakönnunum eru andvígir stjórnarskrá Evrópusambandsins. Þar hefur Tony Blair, forsætisráðherra landsins, ákveðið að taka sér nægan tíma til að reyna að snúa taflinu við og er ekki búist við þjóðaratkvæðagreiðslu um málið þar í landi fyrr en einhvern tímann á næsta ári haldi Verkamannaflokkurinn völdum í landinu í þingkosningunum í vor. Brezkir íhaldsmenn hafa hins vegar lofað því að halda þjóðaratkvæðið fyrr nái þeir völdum.

Í heildina munu eitthvað um tíu aðildarríki Evrópusambandsins halda þjóðaratkvæði um fyrirhugaða stjórnarskrá sambandsins á þessu ári eða því næsta og eitt hefur þegar gert það, Spánn. Þar var stjórnarskráin samþykkt með miklum meirihluta, en þátttakan þar var mjög dræm eða um 44%. Enginn bjóst við öðru en að Spánverjar myndu samþykkja stjórnarskrána enda fáar aðildarþjóðir Evrópusambandsins eins Evrópusambandssinnaðar og Spánverjar. Aðrar þjóðir sem hyggjast halda þjóðaratkvæði um stjórnarskrána eru auk Frakka Bretar, Hollendingar, Írar, Danir, Portúgalir, Pólverjar, Lúxemburgarbúar, Belgar og hugsanlega Tékkar. Önnur ríki munu taka afstöðu til stjórnarskrárinnar í gegnum þjóðþing sín og hafa þegar fjögur þeirra gert það, Ítalir, Litháar, Slóvenar og Ungverjar.

Í raun þarf aðeins eitt aðildarríki Evrópusambandsins að hafna stjórnarskránni til að hún sé úr sögunni samkvæmt reglum sambandsins. Forystumenn þess hafa þó ítrekað lýst því yfir að sjá verði til þess að þó eitt eða fleiri aðildarríki hafni stjórnarskránni muni það ekki stoppa allt ferlið. Þau ríki myndu þá einfaldlega fá einhvers konar aukaaðild að Evrópusambandinu. Þetta er líklegt að verði raunin ef Bretar hafna stjórnarskránni og/eða einhver minni aðildarríki sambandsins. Hins vegar eru allir sammála um að annað sé um að ræða ef Frakkar hafni henni enda ekki bara ein stærsta þjóð Evrópusambandsins heldur líka stofnríki.

Hjörtur J. Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband