Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 25. apríl 2005

Íslensk blöð Nýtt dagblað mun víst hefja göngu sína innan skamms undir heitinu Blaðið. Frumlegt nafn. Framtakið er hins vegar ekki eins frumlegt þegar kemur að því hvernig blaðið á að vera, jú það á að vera „frjálst og óháð“. Þetta er nú sennilega einhver mesta klisja samtímans. Svo má gera ráð fyrir að blaðið eigi að vera hlutlaust líka þó það hafi ekki verið tekið sérstaklega fram. Í því sambandi vitna ég bara í auglýsingarnar fyrir Sunnudagsþáttinn á Skjá Einum á sínum tíma: „Enginn er hlutlaus!“

Nú má ekki skilja þessa byrjun mína sem svo að ég sé eitthvað á móti útgáfu Blaðsins. Ég fagna auðvitað auknum fjölbreytileika á íslenzkum fjölmiðlamarkaði. Það er bara almennt séð hið bezta mál. Fyrir utan það að ég hef afskaplega óljósa hugmynd, eins og sennilega flestir, um það hvernig þetta nýja blað á að vera eða hvernig það muni reynast. Það sem ég var að gagnrýna er það að fjölmiðlar hafa tilhneigingu til að gera að því skóna, beint eða óbeint, að þeir séu hlutlausir.

Það er auðvitað enginn algerlega hlutlaus, svo mikið er víst, sama hvað það er reynt. Menn eru í raun bara mishlutdrægir. Við erum öll þátttakendur í þessu lífi og höfum ákveðinna hagsmuna að gæta, höfum ákveðnar skoðanir á hlutunum og verðum fyrir alls konar áreiti sem hefur sín áhrif á það hvernig við nálgumst hlutina. Við erum ekki bara áhorfendur. Fyrir vikið finnst mér alltaf frekar skondið að heyra talað um t.d. „hlutlausan fréttaflutning“ og „óháða fjölmiðla“. Þetta er vitanlega ekki sízt bara ákveðin markaðssetning – enda hljómar þetta auðvitað voða vel.

En hvers vegna mega fjölmiðlar ekki bara vera yfirlýst pólitískir t.d. eins og í Bretlandi? Það er eiginlega eins og það sé eitthvað “tabú” hér á landi. Eitthvað sem megi ekki. Eitthvað sem tilheyrir fortíðinni. En hvað er að því þó einhverjir fjölmiðlar einfaldlega gæfu sig út fyrir það að vera pólitískir. Þeir hölluðust í ákveðna átt, styddu ákveðin sjónarmið og jafnvel flokka. Fólk vissi þá allavega hvar það hefði þá að því leyti. Mér finnst allt í lagi ef sumir fjölmiðlar væru þannig svona fljótt á litið. Ég myndi t.d. alveg vilja sjá pólitísk blöð gefin út hér á landi á ný í bland við þessi „frjálsu og óháðu“. Þyrftu auðvitað ekkert endilega að vera dagblöð, gætu t.d. verið blöð gefin út svipað oft og Viðskiptablaðið.

Ég veit annars ekkert hvort það væru rekstrarlegar forsendur fyrir slíkum blöðum eða hvort íslenskar aðstæður bjóða upp á slíkt. Og kannski eru pólitísku vefritin á netinu alveg nóg í þessu sambandi. En mér finndist allt í lagi að kanna með þennan möguleika. Hver veit nema slíkt gengi hér á landi? Um að gera að reyna að auka á fjölbreytnina!

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband