Leita í fréttum mbl.is

Jóhannes Páll páfi II

Jóhannes Páll páfi II, verður jarðsunginn í Róm í dag. Um 200 þjóðarleiðtogar og stjórnarerindrekar verða við útförina og því um að ræða einn merkasta atburð seinni tíma sögu. Töldu margir að páfi yrði jarðsettur í heimalandi sínu, Póllandi, en kardinálarnir hafa ákveðið að hann muni hvíla með öðrum páfum í grafhvelfingu basilikunnar í St. Péturskirkju. Mun hann verða lagður til hinstu hvílu þar sem Jóhannes páfi XXIII var grafinn við andlát sitt árið 1963. Lík páfa lá á viðhafnarbörum í St. Péturskirkju í fjóra daga fyrir útförina. Tæplega 3 milljónir manna vottuðu páfa virðingu sína á þeim tíma. Biðu mörg hundruð þúsund manns enn í biðröð í miðborginni er tekin var sú ákvörðun að loka fyrir þær að kvöldi miðvikudags, enda þá ljóst að aðeins takmarkaður fjöldi myndi ná að kirkjunni. Segir það meira en mörg orð um hug fólks til páfans og verka hans. Fyrirfram var vitað að fjöldinn yrði mikill sem vildi votta honum virðingu, en hann hefur sprengt af sér alla spádóma um mögulegar tölur.

Pólverjinn Karol Józef Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali. Hann fæddist 18. maí 1920 í smábænum Wadowice í Póllandi. Upplifði hann ógnir seinni heimsstyrjaldarinnar á unglingsárum sínum en Pólland var hernumið af Þjóðverjum árið 1939. Á æskuárum sínum áður en hann ákvað að nema guðfræði og helga sig kristinni trú var hann kraftmikill íþróttamaður og stundaði einkum knattspyrnu og sund og vann til fjölda verðlauna á unglingsárum í sundi. Hann tók vígslu sem prestur eftir nám sitt árið 1946. Hann kenndi siðfræði við Jagiellonian-háskólann í Kraków og síðar kaþólska háskólann í Lublin til fjölda ára. Árið 1958 var hann skipaður prestur í Kraków og fimm árum seinna, í desember 1963, var hann skipaður erkibiskup í Kraków. Árið 1967 var hann skipaður kardináli af Páli páfa VI og varð með því orðinn einn af forystumönnum Vatikansins og kaþólsku kirkjunnar. Var hann því orðinn kjörgengur við páfakjör.

Reyndi fyrst á það í ágúst 1978 er Páll páfi lést og eftirmaður hans var kjörinn. Hlaut Albino Luciani kjör og tók sér nafnið Jóhannes Páll páfi I. Hann lést eins og fyrr segir 33 dögum eftir vígslu sína. Fór páfakjör fram í október 1978 og þótti fyrirfram líklegast að baráttan um páfatignina myndi standa milli Giuseppe Siri og Giovanni Benelli. Gekk brösuglega fyrir þá að ná tilskyldum meirihluta. Í fyrstu umferð vantaði Benelli 9 atkvæði til að sigra í kjörinu. Varð þá úr að samstaða náðist milli vissra arma í trúarhreyfingunni um að Wojtyla gæfi kost á sér og náði hann kjöri sem málamiðlunarkostur. Var undrun víða um heim við kjör hans, enda var hann lítt þekktur og hafði verið lítt umdeildur í störfum sínum. Margir nefndu hann manninn frá fjarlæga landinu, sem til marks um það að hann gat verið sameiningartákn ólíkra hluta og gæti því tekið við forystunni með lítt umdeildum hætti.

Enginn vafi leikur á því að Jóhannes Páll páfi II hafi verið litríkasti og mest áberandi páfi í sögu kaþólsku kirkjunnar og hafi sett einna mest mark á sögu embættisins. Aðeins tveir sátu lengur á páfastóli en hann: St. Peter og Pius IX. Jóhannes Páfi II var litríkur páfi og markaði stór spor í sögu kirkjunnar. Hann fór í 104 opinberar heimsóknir og heimsótti 129 lönd. Samkvæmt upplýsingum frá Vatíkaninu eyddi hann 822 dögum embættisferils síns, eða 2 árum og 3 mánuðum, í ferðir utan Vatíkansins. Hann flutti 20.000 ræður og ávörp og veitti rúmlega 1.000 áheyrnir í Vatíkaninu sem 17 milljónir og 800.000 manns sóttu. Hann átti fundi með 1.600 stjórnmálaleiðtogum, þar af 776 þjóðarleiðtogum. Hann gaf út fleiri yfirlýsingar og tilskipanir innan kirkjunnar en áður hefur þekkst og tók alls 482 menn í dýrlingatölu sem er meira en allir forverar hans höfðu gert í 400 ár. Það deilir því enginn um áhrifamátt þessa trúarleiðtoga sem nú hefur kvatt. Hvað sem segja má um skoðanir hans voru áhrif hans mikil og enginn vafi leikur á að hann var einna merkastur af trúarleiðtogum í sögu kaþólsku kirkjunnar.

Frá því að tilkynnt var um lát páfa á laugardagskvöld hefur fólk um allan heim minnst hans og 27 ára ferils hans í embættinu. Er það samdóma álit flestra að páfinn hafi verið boðberi friðar, ötull talsmaður friðarboðskapar og hans framlag skipt sköpum er kom að endalokum kommúnismans og grimmilegs einræðis sem predikað var í nafni hans. Met ég mikils forystu hans í friðarmálum, hans rödd var öflug á því sviði og það leikur enginn vafi á því að hann hafði mikil áhrif. Heimsókn hans til heimalands síns, Póllands, árið 1979, markaði söguleg skref og það er ekkert vafamál á að hann var ötull talsmaður gegn kommúnisma í heimalandi sínu. Fyrir páfakjörið 1978 hafði hann verið ötull andstæðingur kommúnismans og kjör hans í embættið styrkti mjög baráttu stjórnarandstöðuaflanna í heimalandi hans. Forysta Jóhannesar Páls II á páfastóli hafði hiklaust áhrif við að berja kommúnismann niður í A-Evrópu allri að lokum. Enda reyndi KGB að ráða hann af dögum í maí 1981. Söguleg var ennfremur ferð hans til N-Írlands 1979. Þrátt fyrir átök hélt hann fjölmenna útimessu í Ulster, sem varð söguleg.

Enginn vafi er á að þrátt fyrir farsæla setu á páfastóli var páfinn umdeildur. Fylgismenn hans staðhæfa að hann hafi átt drjúgan þátt í endalokum kommúnismans með baráttu sinni fyrir frelsi og mannlegri reisn í Póllandi og öðrum A-Evrópuríkjum. Andstæðingar hans segja að páfi hafi hrakið milljónir manna úr kaþólsku kirkjunni með íhaldssemi. Hann hafi líkt og forverar hans verið andvígur því að konur gegni prestþjónustu, hann hafi lagst gegn getnaðarvörnum, ástarsamböndum samkynhneigðra og því að prestar kvænist. Hann hafi verið gamaldags fulltrúi og lagst gegn framþróun og verið andvígur mikilvægum mannréttindaatriðum. Stuðningsmenn hans segja að páfi hafi á löngum ferli verið kraftmikill málsvari mannréttinda og stutt "réttar" mannlegar áherslur, eins og þeir segja. Á löngum ferli var hann áberandi talsmaður grunnmannréttinda: málfrelsis og andvígur stríðum, einræði og blóðsúthellingum.

Tekur nú við tímabil sem ber nafnið Novemdialis, 9 daga formlegt sorgartímabil, sem markast af því að á hverjum degi er haldin hátíðarmessa í St. Péturskirkju. Eftir að Novemdialis er lokið er komið að stærsta verkefninu sem fylgir andláti páfa, því að velja formlega eftirmann hans. Kjörmannasamkunda kardinála mun koma saman þann 18. apríl nk. Allir kardínálar, nema þeir sem hafa náð áttræðu, geta tekið þátt í kjöri nýs páfa. Ef marka má fréttir erlendra vefmiðla eru um 120 kardinálar sem standast kjörskilyrðin að þessu sinni. Alla þeirra nema tvo hefur Jóhannes Páll II sjálfur skipað til setu þar. Eru því saman komnir þar fulltrúar skoðana hans og vart að búast við mikilli stefnubreytingu með eftirmanni hans. Er talið ólíklegt að val páfa að þessu sinni verði jafn sögulegt og hið seinasta. Bæði er almennt talið að eftirmaðurinn verði maður um eða yfir sjötugt og sitji því skemur í embætti og hafi minni söguleg áhrif.

Þrjár aðferðir eru til að velja nýjan páfa. Í fyrsta lagi er sú aðferð sem algengust er: að velja páfa með beinni kosningu. Frambjóðandi verður þá að hljóta 2/3 allra atkvæða til að vera kjörinn, í öðru lagi er hægt að kjósa páfa með upphrópun. Þá eru allir kardínálarnir sammála um hver skuli taka við sem páfi og kalla nafn hans upphátt. Að lokum er hægt að velja páfa með málamiðlun. Atkvæðagreiðslan fer fram í Sixtínsku kapellunni. Eftir að samstaða hefur náðst eru atkvæðaseðlarnir brenndir. Hvítan reyk leggur þá upp yfir Péturstorgið til marks um niðurstöðuna - páfi hafi verið kjörinn. Sú nýbreytni verður á vali páfa að þessu sinni að ekki mun aðeins hvítur reykur marka kjör nýs páfa, heldur mun bjöllum Vatíkansins verða hringt til merkis um að kardinálarnir hafi náð samstöðu. Er það til að koma í veg fyrir misskilning, enda getur reykurinn hvíti virst grár. Hver svo sem valinn verður er ljóst að söguleg tíðindi eru framundan innan kaþólsku kirkjunnar.

Jóhannes Páll II páfi var sannkallaður áhrifamaður á samtíð sína og alla framtíð, bæði kristinnar trúar og þess embættis sem hann gegndi af trúmennsku og mikilli samviskusemi í þrjá áratugi og sýndi ótrúlegan styrk sérstaklega seinustu árin, er hann barðist við veikindi og sífellt minni þrótt til starfa. Hann réði ekki yfir herstyrk eða vopnavaldi en vald hans og áhrif var öflugra en það allt til samans, hann vann á grundvelli trúar og var einlægur fulltrúi þess sem kristin trú byggir á. Áhrif hans við að tjá þann boðskap var sterkari en allt mannlegt. Hann var allt til hinstu stundar ötull og öflugur talsmaður Guðs. Hann markaði skref í sögu mannkyns sem gleymast ekki að mínu mati. Eftirmanns hans bíður ekki auðvelt verkefni að taka við embættinu, nú þegar hann hefur kvatt.

Stefán Friðrik Stefánsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband