Leita í fréttum mbl.is

Um þéttingu byggðar

Í skipulagsfræðum er talað um að borg með íbúaþéttleika upp á 150 íbúa á hektara sé mjög hagkvæm, með öflugum miðbæ og hagkvæmum almenningssamgöngum. Borg með íbúaþéttleika upp á um 100 íbúa á hektara sé með þessa hluti í ásættanlegum horfum, en borg með kringum 50 í íbúaþéttleika sé óhagkvæm vegna lélegra samganga, lítt þrifalegum (efnahagslega) miðbæ og þá fleiri þjónustumiðstöðvum sem draga úr mikilvægi miðbæjarins. Í slíkri byggð er grundvöllur fyrir almenningssamgöngur allt of lítill til að það standi undir sér, og því út úr myndinni að einkaaðilar reki það, líkt og möguleiki er á í fyrrnefndum tilfellum með tilheyrandi ávinning fyrir íbúa.

Lesandinn veltir eflaust fyrir sér hvernig staðan sé hér í borg, þó hann geti sér líklega til að við séum í lægri mörkum þessa stuðuls. Ástandið er þó verra en það, því þrátt fyrir að reynt hafi verið að fegra niðurstöðuna með því (öfugt við hina stöðluðu aðferð) að sleppa grænum svæðum innan borgarmarkana eða ystu marka borgarbyggðarinnar er íbúaþéttleikinn í Reykjavík (og væntanlega höfuðborgarsvæðinu öllu) ekki nema 18 til 26 íbúar á hektara. Þetta er einungis helmingurinn af því sem talið er mjög slæmt ástand í skipulagsfræðum með tilheyrandi óhagræði og skorti á lífvænleika byggðar.

Ef það heldur áfram sem horfir mun samgöngukerfið aldrei geta annað eftirspurn, heldur vaxa borginni til höfuðs, þannig að flestallir kostir þess að búa í borg munu á endanum algerlega hverfa hér í Reykjavík, með tilheyrandi kostnaðarauka og á endanum jafnvel íbúaflótta og þá líklegast úr landi til borganna sem við erum að keppa um fólk við, í nágrannalöndunum. Ef allar hugmyndir (eða jafnvel bara hluti þeirra) um mislæg gattnamót á Kringlumýrar- og Miklubraut verða að veruleika erum við án efa kominn með hæsta hlutfall mislægra gattnamóta á hektara, og líklegast miðað við höfðatölu líka, í heimi.

Það þykir ekki góð latína í skipulagsfræðum að beina allri umferð í gegnum miðja byggðina, frekar ætti að beina umferðinni kringum byggðina, og þyrfti því að leggja meiri áherslu á Sundabraut (sem næði einnig suðureftir áleiðis til Keflavíkur) og ofanbyggðarveg. Slíkur vegur gæti þá einnig þjónað sem föst ytri mörk byggðarinnar svo útþennslu byggðarinnar (e. urban sprawling) lyki að mestu og borgin færi að byggjast meir inn á við í átt til meiri þéttleika og þannig lífvænlegra, hagkvæmara og mannvænlegra samfélags, sem héldi áfram að vera eftirsótt til búsetu út öldina. Ef ekki er gripið til ráðstafana er hætt við að Ísland missi sýna langmikilvægustu auðlind til útlanda í sífellt minnkandi heimi, mannauðinn. Nú þegar erum við kominn í fyrirsjáanlegan vanda varðandi hann með sífellt minnkandi fjölskyldustærðum og lægri fæðingartíðni.

Ef borgin mótaði sér slíka framtíðarsýn, byggða í raun á hinu gamla góða þétta byggðarfyrirkomulagi líkt og við sjáum í vesturbænum og Þingholtunum sem sífellt er horfið meir til nú til dags, kæmi auðvitað ekki til greina að byggja duftkirkjugarð í einu besta byggingarlandi borgarinnar í Öskjuhlíð og þrýstingur á algeran fluttning flugvallarins ykist stórum. Í raun er mikil eftirsjá af þeim skorti á íhaldssemi sem stjórnvöld og skipulagsyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu sýndu af sér með tilkomu bílsins með því að halda sig ekki við það fyrirkomulag sem var þegar byggðin einskorðaðist við svæðið innan Hringbrautarinnar. Þá var miðað við að hægt væri að ganga eftir allri þjónustu, en þeir staðir sem nú þóttu alls ekki nógu góðir svo sem Haðarstígur, sem nefnd sem voru sem dæmi um gamaldagsskipulag er núna eitt eftirsóknarverðasta svæðið til búsetu og til mikillar eftirbreytni.

Einnig er randabyggðin í vesturbænum góð fyrirmynd, og er það engin tilviljun að göngustígarnir í gegnum þessi fallegu hús með grónum bakgörðum hafi verið valin við kvikmyndatöku á myndbandinu við nýja Eurovisionlagið. Þessar fyrirmyndir ættu menn að miða við að nota þegar byggt verður á flugvallarsvæðinu, og gera ætti þar heilstætt skipulag byggt á þéttri byggð í gamla stílnum. Allt hálfkák um hvort flugvöllurinn eigi að vera eða fara, vera að hluta og fara að hluta er óásættanlegt og einungis til þess fallið að eyðileggja tækifærið til þess að gera byggð þétta og lífvænlega til framtíðar.

Höskuldur Marselíusarson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband