Leita í fréttum mbl.is

Virðulegur forseti

Í dag er ástæða til að draga fána að húni. Frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands fæddist í Reykjavík þann 15. apríl 1930 og er því 75 ára. Vigdís varð forseti sama ár og ég fæddist (1980) og sat í því embætti til 1996. Það var á þeim tíma sem fólk bar virðingu fyrir forsetanum sínum. Sjálfur man ég eftir mér í Vatnaskógi sumarið 1992, þá tólf ára gamall, og Vigdís Finnbogadóttir kom í heimsókn til okkar drengjanna. Hún gróðursetti tré með okkur og sýndi starfinu í Vatnaskógi mikinn áhuga.

Kjör Vigdísar til forseta vakti heimsathygli enda var hún fyrsta konan í heiminum sem var kosinn þjóðhöfðingi í lýðræðislegum kosningum.

,,Hrífandi persónutöfrar Vigdísar hafa heillað þjóðarleiðtoga og almenning um allan heim og óhætt er að fullyrða að enginn íslenskur forystumaður hefur náð jafnmikilli hylli á alþjóðvettvangi.

...Þó að Vigdís hafi sigrað naumlega í forsetakjörinu árið 1980 ávann hún sér fljótlega traust og virðingu íslensku þjóðarinnar.

... Ásýnd Vigdísar, glæsileiki og fágun gefur til kynna að þar fari kona sem notið hefur alls hins besta í lífinu. Svo er alls ekki. Þvert á móti hefur hún gengið í gegnum meiri erfiðleika en margir aðrir. Ung missti Vigdís einkabróður sinn og nokkrum árum síðar gekk hún í gegnum erfiðan skilnað. Á meðan hún var í hjónabandi bar hún ekki gæfu til að eignast þau börn sem hún þráði og síðar barðist hún hetjulega við krabbamein þar sem hún hafði sigur. Sársaukinn virðist hafa mótað persónuleika hennar til frambúðar því að hvar sem hún kemur geislar af henni samkennd, hlýja og hluttekning.”
Ásdís Halla Bragadóttir um Vigdísi Finnbogadóttur í bókinni Í hlutverki leiðtogans.

Vigdís Finnbogadóttir sýndi leiðtogahæfileika sína hvað best eftir að snjóflóðin féllu á Súðavík og Flatreyri fyrir rúmlega tíu árum.
Hún var mætt til að hugga fólk og gefa því von. Fólk treysti henni og hún var og er sá leiðtogi sem hlýjar öllum um hjartarætur.

Að sama skapi var Vígdís ópólitískur forseti. Hún gerði sér grein fyrir því að það var ekki hlutverk íslenska forsetans að hafa áhrif á pólitík eða taka þátt í þeim. Í bók Ásdísar Höllu Bragadóttur, Í hlutverki leiðtogans segir Vigdís um þá forsætisráðherra sem hún starfaði með: ,,Þó að ég væri ekki endilega alltaf sammála þeim þá lét ég það ekki uppi, því forsetinn á ekki að vera talsmaður neinnar pólitískrar stefnu.” Og um EES samninginn segir hún: ,,Af minni hálfu var mjög varasamt að neita að skrifa undir samninginn. Með því væri ég að lýsa yfir stríði á hendur Alþingi og ríkisstjórn sem hafði samþykkt hann. Í þjóðaratkvæðagreiðslu hefði aldrei verið hægt að greina á milli um hvað hefði verið kosið, EES-samninginn eða ríkisstjórnina.”

Vigdís hóf ekki baráttu á vígvelli stjórnmálanna eins og við sem höfum það valið gerum á hverjum degi. Hún var yfir það hafin og á lof skilið.

Vigdís Finnbogadóttir er einnig góðgerðasendiherra UNESCO fyrir tungumál heims. Hún hefur látið til sín taka í baráttunni fyrir því að fólk geri sér grein fyrir mikilvægi fjölbreytileika tungumála og hve mikilvægt það er að standa vörð um tungumál í útrýmingarhættu.

John Maxwell talar um í bók sinni, The 21 Irrefutable laws of leadership, hvernig alvöru leiðtogar taka forystuhlutverk sitt langt umfram þann titil sem þeir bera hverju sinni. Þannig má t.d. sjá hvernig Díana heitin prinsessa átti hug og hjörtu heimsins löngu eftir að hún var svipt prinsessutitlinum. Hún hafði meiri áhrif með hverjum deginum sem leið. Það horfðu helmingi fleiri á jarðaför hennar heldur en brúðkaup hennar sextán árum áður.

Við Íslendingar eigum okkar Díönu prinsessu. Hún heitir Vigdís Finnbogadóttir. Þó svo að hún hafi látið af starfi forseta Íslands er hún alltaf Vigdís forseti. Sá forseti sem þjóðin elskaði, dáði og virti.

Ég óska Vigdísi innilega til hamingju með daginn.

Gísli Freyr Valdórsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband