Leita í fréttum mbl.is

Umræða um málefni Reykjavíkurflugvallar

Í vikunni var haldinn umræðufundur um málefni Reykjavíkurflugvallar í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Þar tókust Egill Helgason þáttastjórnandi á Stöð 2 og og Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair, á um málið og svöruðu fyrirspurnum úr sal. Fundurinn var haldinn á vegum Heimdallar og sjálfstæðisfélaganna í Nes- og Melahverfi, Vestur- og Miðbæjarhverfi, Hlíða- og Holtahverfi, Austurbæ og Norðurmýri. Var ánægjulegt að heyra af því að þessi fundur skyldi hafa verið haldinn og ef marka má fréttir var þar lífleg og góð umræða um málefni flugvallarins. Ekki veitir af umræðu um þessi mál. Hef ég talið mikilvægt varðandi Reykjavíkurflugvöll að í samfélaginu öllu verði frjó og góð umræða, þar sem teknir yrðu fyrir kostir og gallar flugvallar í Vatnsmýrinni og farið yfir málið frá víðu sjónarhorni. Þessi fundur hefur verið góður umræðupunktur og án vafa gagnlegur þeim sem hann sátu, burtséð frá því hver sé skoðun viðkomandi á vellinum, hvort hann eigi að vera áfram á höfuðborgarsvæðinu eða færast annað.

Um er að ræða stórmál, sérstaklega fyrir okkur sem búum úti á landi og þurfum á að halda góðum samgönguleiðum til höfuðborgarsvæðisins. En mín skoðun á málefnum vallarins er alveg skýr - ég vil að hann verði áfram á höfuðborgarsvæðinu. Það er alveg á hreinu, frá mínu sjónarhorni séð. Reykjavík er höfuðborg landsins, sem slík er hún vettvangur t.d. stjórnsýslu og stórfyrirtækja. Öllum er okkur á landsbyggðinni nauðsynlegt að nota flug sem samgönguleið til að sækja þjónustu. Enginn vafi er á því að mínu mati að Reykjavíkurflugvöllur er flugvöllur allra Íslendinga, vettvangur okkar allra, ekki bara Reykvíkinga. Að mínu mati og okkar hér sem erum úti á landi er flugið óneitanlega samgönguleið, lífæð okkar svæðis til höfuðborgarsvæðisins og nauðsynlegur punktur í okkar lífi. Reykjavíkurflugvöllur er mikilvægur okkur sem þurfum að fara um hann mörgum sinnum á ári til að komast suður til Reykjavíkur til fundahalda eða þá til að halda í lengri ferðir.

Ég nota mun frekar flugið en bílinn ef ég þarf að fara suður, til lengri eða skemmri tíma, einkum yfir vetrartímann. Er það eflaust vegna þess að þessi kostur er hraðvirkari og betri kostur til samgangna við höfuðborgarsvæðið. Þó Reykjavíkurflugvöllur sé mikilvægur punktur líta sumir íbúar á höfuðborgarsvæðinu jafnan á völlinn sem sitt einkamál og öðrum komi það ekki við hvernig unnið verði í málum hans á komandi árum. Það hefur allavega verið sjónarmið valdabræðings vinstrimanna sem ráðið hefur í borginni seinasta áratuginn. Rúm fjögur ár eru liðin síðan R-listinn hélt misheppnaða kosningu meðal borgarbúa um völlinn. Hún var misheppnuð í þeim skilningi að hún var bæði byggð á undarlegum forsendum og borgarbúar tóku ekki afstöðu að stóru leyti. Umræðan snerist að öllu leyti að mínu mati um hagsmuni Reykvíkinga og einblínt á vægast sagt þrönga hagsmuni. Landsbyggðarfólki gafst ekki kostur á að tjá sín sjónarmið og fara yfir það sem því þætti mikilvægast í sama máli.
Það er staðreynd, vægast sagt dapurleg staðreynd.

Rætt hefur verið um þann möguleika að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur og leggja flugvöll á höfuðborgarsvæðinu niður. Ég er algjörlega andsnúinn þeim möguleika. Fyrir það fyrsta tel ég það dauðadóm innanlandsflugsins ef sú breyting yrði gerð. Ef flogið yrði til Keflavíkur og við tæki í kjölfar þess hálftímaakstur í borgina myndi tíminn frá brottför til komu í Reykjavík lengjast umtalsvert: að mínu mati það mikið að það verður betri kostur að keyra suður. Auk þess yrði maður þar á eigin bíl og þyrfti því ekki að vera bíllaus í borginni, sem gerist óhjákvæmilega fari maður með flugi. Það sem gerir það að verkum í okkar huga að flugið sé ákjósanlegri kostur er tímalengdin. Um er að ræða fljótvirkan samgöngukost til miðpunktar landsins. Höfuðborgarsvæðið er og verður alla tíð okkur mikilvægt og það er að mínu mati alveg lágmark að okkur séu tryggðar góðar samgöngur þangað og fljótvirkar. Flutningur innanlandsflugsins til Keflavíkur breytir meginsamgöngulínum með þeim hætti að borgin er komin úr grunnsamgöngulínum okkar að þessu leyti.

Fyrir það fyrsta í mínum huga snýst þetta mál um þá ábyrgð og þær skyldur sem höfuðborgin okkar þarf að bera gagnvart öllum landsmönnum öllum. Þar er allt í senn miðpunktur stjórnsýslunnar og þar á viðskipta- og menningarlíf landsins sínar höfuðstöðvar. Það er mjög einfalt í mínum huga að greiðar samgöngur allra landsmanna, til og frá Reykjavík, eru forsenda þess að höfuðborgin geti sinnt sínu hlutverki með eðlilegum hætti. Það er vissulega mál Reykvíkinga hvort þeir vilja hafa flugvöll innan borgarmarkanna eða ekki og önnur sveitarfélög hafa ekkert um það að segja. En meðan Reykjavík er höfuðborg Íslands, miðstöð stjórnsýslu landsins, máttarstoð og miðstöð menningar-, viðskiptalífs og samgangna í landinu þá er m.a. sátt um það að ríkissjóður, hinn sameiginlegi sjóður allra landsmanna, sé nýttur til þess að kosta uppbyggingu innanlandsflugsins í Reykjavík, þó á þenslutímum sé. Að þessu leyti lít ég svo á að höfuðborgin sé ennfremur mín. Um er að ræða málefni sem skiptir því ekki bara borgarbúa máli að því leyti.

Tvær hliðar eru vissulega á öllum málum. Það má ekki gleymast að það að leggja af miðstöð innanlandsflugs í Reykjavík mun þýða algjöra grundvallarbreytingu á samgönguháttum landsins og með því er að mínu mati kallað á uppstokkun á öðrum þáttum sem sameiginlega hafa verið byggðir upp af landsmönnum öllum. Það er því algjörlega ljóst að grunnniðurstaða mín er sú að verði þessi samgöngumiðstöð lögð af á höfuðborgarsvæðinu í þeirri mynd sem við þekkjum hana nú, þurfi og sé vart frá því komist að skilgreina að nýju bæði verkefni og ekki síður þjónustuhlutverk höfuðborgar Íslendinga. Eins og bent hefur verið á er það þó vissulega erfitt að orða það með þeim hætti í ljósi þess að stjórnsýsla ríkisins hefur um langt skeið fengið að þróast mjög óheft í Reykjavík á forsendum kunningjasamfélags innan borgarmúranna. Það er þó alveg grunnpunktur málsins að breytingar á stöðunni leiða til frekari breytinga en þeirra að loka vellinum og ætla að skutla honum eitthvað annað í burtu. Burtséð frá því er ljóst að með tilfærslu innanlandsflugsins frá þessum meginpunkti allrar stjórnsýslu verður breyting á þessu meginhlutverki Reykjavíkur sem höfuðborgar.

Í vikunni áttust formannskandidatarnir í Samfylkingunni við í sjónvarpsþætti. Var þar komið inn á málefni Reykjavíkurflugvallar. Mikla athygli vakti að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi, sem gegndi embætti borgarstjóra í Reykjavík í tæp 9 ár, virðist engar prívat skoðanir hafa á þessu stóra og mikla máli - nákvæmlega engar. Opinberaðist þar að hún hefur sem slík engar skoðanir á því en talar í sífellu um málið út frá löngu úreltum forsendum og getur ekki staðfært sig á málið á árinu 2005. Það er með algjörum ólíkindum að manneskja sem er að gefa kost á sér til forystu í stjórnmálaflokki hafi enga skoðun á málinu frá eigin forsendum, sérstaklega því um er að ræða manneskju sem hefur leitt borgarmálin og verið forystumaður þessa stærsta sveitarfélags landsins. Það er mjög hvimleitt fyrir okkur á landsbyggðinni að sjá svona wannabe stjórnmálamenn sem tala í frösum og nýyrðaflaumi en geta ekki talað hreint út um málefni sem skiptir okkur máli, grunnmálefni í samgöngumálum. Einkum er það slæmt í ljósi þess að um er að ræða stjórnmálamenn sem eru að reyna að gera sig gildandi sem forystumanneskju á landsvísu af hálfu stjórnmálaflokks.

En það er svosem ekkert hægt að gera í því. Eftir stendur mikilvægi þess að hver og einn tali hreint út um málin. Það hef ég nú gert. Það er í sjálfu sér mjög auðvelt að tala út um málið frá eigin forsendum, þegar um er að ræða mál sem snertir mann jafnmikið og þetta mál. Samgöngulegar tengingar skipta máli hvað mig snertir, einkum í ljósi þess að ég bý á landsbyggðinni. Ég vil geta verið í góðum tengingum við höfuðborgarsvæðið og talið það sjálfsagðan hlut að geta með lítilli fyrirhöfn farið í flugvél og komist í kjarna miðpunktar stjórnsýslunnar og fleiri mikilvægra þátta með skjótum hætti. Í þessum efnum er talað er um flugvöllinn leiðist mér þegar menn eru að tala um þetta sem grunn hvort hann sé í Vatnsmýrinni. Það er að sjálfu sér aukaatriði að mínu mati. Grunnpunktur af minni hálfu er að hann sé á höfuðborgarsvæðinu. Það er innri ákvörðun yfirvalda í sveitarfélaginu hvar hann sé ætli Reykjavík og svæðið þar í kring að standa undir nafni sem höfuðborg og vera áfram sá miðpunktur sem hann hefur verið til fjölda ára.

En allt er þetta grundvöllur umræðu um málið í heildinni, þess vegna var þessi fundur sjálfstæðismanna í borginni um málefni flugvallarins í vikunni mjög mikilvægur. Í ljósi hans skrifaði ég þessar línur. Mér er málið mjög skylt og ég hef mínar skoðanir á því og sjálfsagt mál að koma þeim skoðunum til skila. Fyrir mig sem íbúa á norðanverðu landinu er flugvöllur á höfuðborgarsvæðinu samgönguleg tenging. Á þeim forsendum á ég mjög erfitt með að sitja þegjandi hjá þegar heyrast þær raddir að taka þá samgöngutengingu og beina henni annað. Það er algjörlega einfalt mál af minni hálfu. En megi umræðan um þetta mál blómstra og jákvætt er að hver tjái sig og sínar skoðanir með ákveðnum hætti. Það væri góðráð fyrir þá stjórnmálamenn sem ætla sér stóra hluti á landsvísu að tjá skoðanir sínar en reyna ekki að þegja málið með frasablaðri eins og dæmið sannar í vikunni. Það er eðlilegt að menn tali hreint út og segi sínar skoðanir óhikað.

Stefán Friðrik Stefánsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband