Leita í fréttum mbl.is

Ómakleg árás

geirh1Arnar Þór Stefánsson ræðst á formann Sjálfstæðisflokksins með frekar ómaklegum hætti á Deiglunni í gær. Í grein sem hann kallar "Að þekkja sinn vitjunartíma í pólitík" gerir hann kröfu um að þeir þingmenn sem komu inn á þing 1991 eða fyrr þekki sinn vitjunartíma, standi upp og hætti.

"Höfundur þessa pistilis er þeirrar skoðunar að almennt séð séu 16 ár á þingi feykinógur tími til setu þar. Á þeim tíma geti þingmenn, þó einkum stjórnarþingmenn, komið mörgu því til leiðar sem þeir hafa sannfæringu fyrir, að minnsta kosti meginlínum í þeirri sannfæringu. Þingmenn Sjálfstæðisflokks sem komu inn á þing árið 1991 eða fyrr hafa til að mynda haft öll tækifæri í þessum efnum og nýtt þau reyndar býsna vel. Nú er hins vegar að mati pistilshöfundar komið að leiðarlokum."

Þarna er ómaklega vegið að formanni Sjálfstæðisflokksins en hann hefur eins og allir þekkja, setið lengst sjálfstæðismanna sem hyggjast sitja áfram. Geir kom inn á þing 1987. Af stjórnarþingmönnum hafa einungis hann, Guðni Ágústsson og Valgerður Sverrisdóttir setið síðan þá. Nú má vera að Arnar sé að beina orðum sínum að Guðna og Valgerði en þar sem hann kvartar undan því að þurfa að kjósa þaulsetið fólk í prófkjörum, þá held ég að hann sé að beina þessari ósk sinni til eigin flokksmanna. Þar hittir hann fastast fyrir formann flokksins. En Arnari finnst ekki nóg að velta formanninum. Hann vill líka slá af fjármálaráðherra, sjávarútvegsráðherra, samgönguráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra. Þá vill hann losna við fyrrverandi umhverfisráðherra og formann samgöngunefndar útaf þingi. Arnar er ekki að boða endurnýjun heldur hallarbyltingu!

Það er erfitt að segja hver ásetningur Arnars er. Arnar er úr Mosfellssveit og því er Brútusarlag hans gegn þingmanni heimabæjarins eftirtektarvert.

Lokaorð greinar Arnars eru:

"Þaulseta er ekki göfug hvort sem er í veislum eða á Alþingi. Það er almenn kurteisi að standa upp úr sætum sínum fyrir nýju fólki þegar menn hafa setið að borðum alltof lengi. Þessari kurteisi er almennt ekki fyrir að fara í nægjanlegum mæli hjá þeim þingmönnum sem komu inn á Alþingi vorið 1991 eða fyrr. Að þekkja sinn vitjunartíma er góður eiginleiki í pólitík sem öðru."

Það væri sniðugt fyrir Arnar að senda grein sína beint á eftirfarandi aðila í stað þess að vega að þeim undir rós. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem komu inn á þing 1991 eða fyrr eru: Árni M. Mathiesen, Björn Bjarnason, Einar K. Guðfinnsson, Geir H. Haarde, Guðmundur Hallvarðsson, Sigríður A. Þórðardóttir, og Sturla Böðvarsson.

Krafa Arnars nú er líka krafa um að varaformaður Sjálfstæðisflokksins hætti afskiptum af pólitík eftir 8 ár, þá verður hún fimmtug. Guðlaugur Þór, Birgir Ármannsson og Sigurður Kári  hætti á þingi ekki síðar en eftir 12 ár en þá verða þeir tveir fyrrnefndu um fimmtugt og Sigurður 45 ára, öllsömul greinilega "over the hill".

Það er ekki árafjöldinn sem ræður erindi manna heldur spurningin hvort viðkomandi stjórnmálamaður hafi sýn og markmið, hvort hann eigi hugsjónir og hugmyndir sem eiga erindi inn í sali alþingis. Það má vera að einhverjir þingmenn missi erindi sitt á 16 árum en sumir missa það enn fyrr. Það er sérstaklega sárt að sjá menn sem hafa gefið sig út fyrir að vera málsvarar einkaframtaks og frjálshyggju ausa úr sjóðum almennings um leið og þeir komast í aðstöðu til þess. Svoleiðis stjórnmálamenn missa erindi sitt strax og þeir svíkja hugsjónir sínar og þurfa engin 16 ár til.

Friðjón R. Friðjónsson
www.fridjon.blog.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband