Leita í fréttum mbl.is

Tekjujöfnun

Íslenska orðabókin skilgreinir orðið tekjujöfnun sem ,,það að jafna tekjur á milli manna.” Merking orðsins er greinileg, en hvernig er tekjujöfnun í verki? Á Íslandi fer fram tekjujöfnun á hverjum degi. Deilt er daglega um hversu mikil hún á að vera og í hvaða formi hún skal framkvæmd. Dæmi um tekjujöfnun er niðurgreiðsla á lyfja- og heilbrigðisþjónustu. Hvernig þá? Jú, af því að sá sem nýtir sér slíka þjónustu er ekki að greiða fyrir hana að fullu heldur fær sá sami hluta þjónustunnar/vörunnar niðurgreidda úr ríkissjóð. Allir vita að fjármagn það sem situr í ríkissjóð verður ekki til af sjálfu sér.

Maður sem missir vinnuna fær greiddar atvinnuleysisbætur. Sá sem áður hafði vinnu en hefur hana ekki nú hefur rétt á því að fá atvinuuleysisbætur greiddar úr ríkissjóð. Sá sem slasast eða veikist og getur ekki unnið fær greiddar örorkubætur úr ríkissjóð. Fólk með börn fær greiddar barnabætur og fólk sem skuldar ákveðna upphæð fær greiddar vaxtabætur. Allt úr hinum ,,sameiginlega“ sjóð. Tekjujöfnun á sér stað þegar fólk sendir börnin sín í skóla. Hvorki foreldrar skólabarnanna né börnin sjálf greiða fullt verð fyrir þjónustuna. Það er ekkert ókeypis. Það er alltaf einhver sem greiðir.

En burtséð frá því hvort að tekjujöfnun sé réttlætanleg eða ekki getur hún talist bæði sanngjörn og ósanngjörn.

Dæmi um sanngjarna tekjujöfnun.

Það er alltaf gaman að hugsa sér auðveld dæmi þegar maður veltir fyrir sér hugmyndafræði. Við skulum gefa okkur eftirfarandi umræðunnar vegna:

Gefum okkur tuttugu manna hóp staddan á eyðieyju. Einn daginn fæðist barn sem hvorki getur gengið né notað hendurnar af neinu ráði. Þegar fram líða tímar mun þessi einstaklingur ekki geta séð fyrir sér sjálfur, hann mun ekki geta veitt sér til matar, smíðað húsaskjól og svo framvegis.

Þeim aðilum sem fyrir eru á eyjunni ber siðferðisleg skylda til að fæða og klæða þennan einstakling vitandi að hann muni láta lífið ef svo er ekki gert. Það gera hinir íbúarnir með því að leggja á sig einhverja vinnu til að sinna þessum einstakling. Afskiptaleysi þeirra af einstaklingnum væri ómannúðlegt.

Þetta þýðir ekki að fatlaði einstaklingurinn geti sett upp kröfur um hvernig hann vill hafa hlutina í kringum sig. Það þarf hann að semja um við hina íbúa eyjunnar.

Ef dæmið er fært til nútíma vestræns lands liggur í augum uppi hvernig þessari tekjujöfnun skal háttað. Áfram vinna íbúar landsins og sá hluta launa sinna til þeirra sem ekki getað bjargað sér sjálfir.

Dæmi um ósanngjarna tekjujöfnun.

Hér skal tekið fyrir annað dæmi. Aftur skal haldið á eyðieyjuna þar sem ákveðinn fjöldi manna. Fæddir eru tveir aðrir drengir, Pétur og Páll. Þeir eru nú komnir á eigin ábyrgð. Þeir hafa lært að veiða sér til matar og kunna að sama skapi að reisa sér húsaskjól og búa sér til föt. Einnig skal tekið fram að þeir hafa báðir líkamlega burði til að gera alla fyrrnefnda hluti.

Pétur ákveður nú að hann ætli ekki að vinna. Hann er orðinn latur og nennir ekki að vinna sér til matar. Ber hinum íbúum eyjunnar einnig að fæða hann og klæða eins og þeir gera við fatlaða einstaklinginn áður? Nei, langt því frá. Ef hann hefur burði til að fæða sig og klæða sjálfur skal hann gera það sjálfur.

Ef hann nú fótbrotnar og getur ekki veitt sér mat í mánuð. Ber þeim þá skylda til að fæða hann? Nei, ekki heldur. Þeim ber ekki skylda til þess þó að vissulega sé þeim heimilt að sýna þann bróðurkærleika að hjálpa honum. Hann hefði hins vegar átt að safna sér mat þannig að hann gæti nú bjargað sér í mánuð ef enginn á eyjunni vildi vera svo vænn að fæða hann á meðan veikindum hans stendur.

Páll er aftur á móti frumlegri en Pétur. Hann hefur ákveðið að að skreyta nokkra hellisveggi með laufblöðum og sjávarþangi. Enginn hefur ráðið hann til verksins heldur gerir hann þetta af sjálfsdáðum. Hann er viss um að hinum íbúum eyjunnar muni finnast það glæsilegt og vonar að sem flestir njóti þess.

Gallinn á þessari ráðagerð hans er sú að það fer mikil vinna í verkið og hann hefur því ekki tíma til að veiða sér mat.

Þá er spurningin. Hvílir skylda á hinum íbúum eyjunnar að fæða hann á meðan verkinu stendur? Ber þeim siðferðisleg skylda til þess? Svarið er að sjálfsögðu nei. Þeim ber engin skylda til að sjá fyrir honum. Það má vel vera að listaverkið verði stórglæsilegt og allir íbúar eyjunnar verði stórhrifnir. Þá væri tilvalið fyrir Pál að selja aðgang að hellinum. Þá getur hann væntanlega keypt sér mat af öðrum á meðan gerð næsta listaverks stendur.

Auðvitað er það sem hér er skrifað langsótt dæmi en þau eru aðeins til að gefa hugmynd af raunveruleikanum. Það er til fullt af fólki sem annað hvort nennir ekki að vinna eða finnst sjálfsagt að aðrir borgi fyrir áhugamál þeirra. Á sama tíma er til fullt af fólki sem getur ekki unnið og hefur það alla jafna ekki gott fjárhagslega.

Góða helgi…

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband