Leita í fréttum mbl.is

Sértrúarsöfnuður trúleysingja

Trúleysingjar á Íslandi hafa safnast nokkrir saman í hóp og stofnað vefsíðu, Þetta gerðist nú reyndar ekki í gær þannig að það er svo sem engar fréttir þó að nokkrir drengir stofni síðu sem fjallar um að trúa á ekki neitt.

Nú var maður hér á landi síðustu helgi að halda ráðstefnu um að trúa á ekki neitt. Það er svo sem heldur ekki fréttnæmt en áhugavert engu að síður. Ég kynnti mér málið aðeins og kíkti á síðu þeirra trúleysingja og einhverjar bloggsíður þeirra sem að síðunni standa. Þar er þó lítið að finna nema fátæk rök fyrir því að Guð sé nú ekki til og uppnefni á kristnum sem ekki verða endurtekin hér. Það gefur augaleið að þeim er ekki vel við menn eins og m.a. Gunnar Þorsteinsson (oft kenndan við Krossinn). Kalla hann trúarfasista og fleira í þeim dúr án þess þau að færa fyrir því nokkurn rökstuðning.

Það er einnig athyglisvert að skoða ,,commentin” sem koma á eftir greinunum. Þau eru aðallega frá öðrum pennum síðunnar að segja hvor öðrum hversu góðar greinarnar þeirra eru, hversu sammála þeir séu og hvað allir aðrir séu miklir vitleysingar, þó sérstaklega nafngreindir trúaðir menn á Íslandi.

Nú er íhald.is ekki síða um trúmál. Það er ekki tilgangur síðunnar að sanna tilveru Guðs, sonar Hans, né hins Heilaga Anda. Hins vegar vakti það athygli mína hvernig þessi fámenni hópur talar um alla sem telja sig hafa upplifað eitthvað æðra okkar mannlega skilningi, þ.e.a.s. trúa á eitthvað æðra máttarvald.

En aðal gesturinn á fyrrnefndri ráðstefnu heitir Richard Dawkins og er víst einhver frægur trúleysingi. Til hamingju Richard. Vef-Þjóðviljinn gerir heimsókn hans mjög góð skil s.l. mánudag og bendir á tilhæfulaus rök Dawkins fyrir því að heimurinn væri betri staður ef engin væru trúarbrögðin. Hér stendur nú ekki til að bera í bakkafullan lækinn en þó eru nokkur atriði sem vert er að fjalla um.

Í viðtalinu í Kastljósi beitir Dawkins því helst fyrir sér að þeir sem trúa á eitthvað hugsi ekki sjálfstætt og jafnvel ekki neitt. Svipaðar röksemdir eru hafðar uppi á vantrúarsíðunni – það eru sem sagt allir hálfvitar nema Richard Dawkins og nokkrir strákar á Íslandi. Allir þeir hundruðir milljóna ef ekki milljarðar af fólki sem trúir á eitthvað æðra því sjálfu og því sem við sjáum í kringum okkur hugsar ekki sjálfstætt. Mikið er nú gott að Dr. Dawkins kom til að upplýsa okkur um það.

Dawkins talar um ástæðu þess að Bandaríkjamenn skuli vera aktívir í trú sinni. Hann bendir þar réttilega á að í Bandaríkjunum er aðskilnaður ríkis og kirkju og því kirkjan ekki ríkisstofnun og rekin sem slík. Þar fær frjálsi markaðurinn að njóta sín (sem Dawkins finnst ekki gott) hvað varðar kirkju og trúarlíf einstaklinga. Þannig ætti það auðvitað að vera hér líka. Dawkins hefur þó rangt fyrir sér þegar hann segir kirkjurnar vera að reyna að lokka fólk til sín með einhvers konar sölutrixum og þess háttar. Þeim kirkjum sem gengur vel í Bandaríkjunum eru eða telja sig vera að boða fagnaðarerindi sem frelsar einstaklinga og út af því sé það gott að fólk fari í kirkju.

En Dawkins (sem er vísindamaður eins og hann tók nokkrum sinnum fram í viðtalinu) telur fólk vera afvegaleitt þegar það sækir kirkju. Orðrétt segir hann auglýsingar kirknanna ,,gæða trúna spennu fyrir treggáfað fólk.” (e.low grade mentality) Já, það eru víst ekki allir jafn gáfaðir og Dawkins og litli vantrúarhópurinn á Íslandi. Hrokinn leynir sér ekki í þessum ummælum Dawkins. Mega kirkjur ekki auglýsa sig? Eiga kirkjur aðeins að starfa í leynum og bak við luktar dyr?

Og auðvitað þurfti Dawkins líka að koma pólitískum skoðunum sínum að, ,,sú þjóð sem kýs yfir sig George W. Bush er ansi furðuleg þjóð. Engin önnur þjóð í heiminum hefði kosið svo lélegan kost. Trúarleg öfl virðast að mestu leyti hafa átt þátt í kjöri hans.”
Þessi skoðun hans er auðvitað ekkert persónuleg og byggist á vísindalegum rannsóknum eins og allt annað sem hann segir? Dawkins er líklega ekki gáfaðari en það að vita að hvorki trúaröfl né nokkuð annað getur átt þátt í kjöri nokkurs manns. Það eru kjósendur (hverjir svo sem þeir eru) sem kjósa. Það er fásinna að segja að einhver trúarhópur hafi kosið mann til valda.

Eins og ég sagði hér áður er ekki tilgangur vefrítsins Íhald.is að sannfæra neinn um trúmál. Það hefur heldur ekki verið stefna okkar að fjalla um sérstök trúmál, nema þá þau tengist að einhverju leyti stjórnmálum eða því sem er að gerast í heiminum þá og þegar. En þegar hrokafullir menn eins og Dawkins og fleiri fjalla um málin með þessum hætti finnst mér viðeigandi að svara því. Það er allt í lagi þó að menn vilji ekki trúa á neitt. Það er líka allt í lagi að segja öðrum að þeir trúi ekki á neitt og halda jafnvel ráðstefnu finnist þeim þeir þurfa að auglýsa það að þeir trúi ekki á neitt. En að kalla alla illum nöfnum sem trúa á eitthvað telja sig yfir alla hafna af því að þeir ,,viti betur” og ,,hugsi sjálfstætt” er ekkert nema hroki. Það eru ekki allir öfgamenn eða ofstækismenn þó að þeir trúi því að það sé eitthvað manninum æðra.

En talandi um öfgar og ofstæki. Ég held að flestir pennar vantru.is séu ákafari í áhuga sínum en flestir kirkjusækandi og trúaðir menn á Íslandi. En ég hef nú ekkert sérstakt fyrir mér í því þannig að ég skal glaður éta það ofan í mig ef svo er ekki. Reyndar skilst og sýnist á þessari umræðu að maður þurfi ekki að hafa mikið fyrir sér í neinu. Bara segjast hugsa sjálfstætt.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband