Leita í fréttum mbl.is

Óendanlega heillandi?

Fyrir nokkru síðan, nánar tiltekið 25. maí sl., birtist grein á vefritinu Deiglan.com eftir Ásdísi Rósu Þórðardóttur, líffræðing, þar sem fjallað var um íslam. Drjúgur hluti - og raunar sérstakur kafli - fór í umfjöllun um íslömsk lög sem kallast Sharia. Það vakti athygli mína að í greininni var ekki minnzt einu orði á t.a.m. þá  kvennakúgun sem lög þessi kveða á um né villimannlegar refsingar sem samkvæmt lögunum ber að beita fyrir ákveðin afbrot. Gera má fastlega ráð fyrir að skortur á umfjöllun um þessi atriði eigi þátt í því að greinarhöfundurinn skuli komast að þeirri niðurstöðu að um "óendanlega heillandi og merkilega menningu" sé að ræða. Íslam er klárlega fyrir margt merkileg trúarbrögð í sögulegu samhengi, en hins vegar get ég ekki sagt að t.a.m. þessi hluti þeirra heilli mig neitt sérstaklega.

Ummæli Ásdísar eru jafnvel enn sérstæðari í ljósi þess að hún hefur ritað talsvert gegn dauðarefsingum og í því sambandi aðallega (eða eingöngu?) beint spjótum sínum að Bandaríkjunum. Nú síðast sl. föstudag á vefrit Sambands ungra sjálfstæðismanna, Sus.is. Mætti hreinlega halda af skrifum hennar að dauðarefsingar væru eitthvað sér bandarískt fyrirbæri sem hvergi ætti sér stað annars staðar í heiminum. Ásdísi virðist annars sérstaklega umhugað um það hversu ómannúðlegar aftökuaðferðirnar eru sem notast er við í þeim ríkjum Bandaríkjanna þar sem dauðarefsingar eru heimilaðar. Vitanlega er ekkert að því að fólk taki afstöðu gegn dauðarefsingum kjósi það það. En í ljósi skrifa Ásdísar gegn dauðarefsingum er jafnvel enn furðulegra að hún skuli ekki hafa minnzt einu orði á þær dauðarefsingar sem íslömsk lög kveða á um í grein sinni um íslam þrátt fyrir að sérstakur kafli hafi fjallað um Sharia-lögin.

Ákvæði Sharia laganna um dauðarefsingar lifa ekki aðeins góðu lífi víða í hinum íslamska heimi (jafnvel í Afganistan þó Talibanarnir séu farnir frá völdum) heldur verða aftökuaðferðirnar, sem kveðið er á um í lögunum, sennilega seint taldar mannúðlegar, enda ólíklegt að slík sjónarmið hafi verið höfð að leiðarljósi þegar þau voru upphaflega samin fyrir meira en eitt þúsund árum síðan. Skoðum nokkur dæmi um þetta.

Samkvæmt flestum túlkunum á Kóraninum er múslimum bannað að afneita íslam og taka upp önnur trúarbrögð. Slíkt er álitið vera helgispjöll, en íslömsk guðfræði leggur helgispjöll og svik að jöfnu. Refsingin fyrir slíkt er dauði samkvæmt flestum túlkunum á Kóraninum (sbr. t.a.m. nýlegt mál í Afganistan).

Fyrir samkynhneigð skal einnig refsað með dauða samkvæmt flestum túlkunum á Kóraninum. Viðeigandi refsing þykir að viðkomandi sé t.a.m. brenndur, honum hrint fram af hárri byggingu eða hann grýttur. Grýting er einnig refsingin fyrir hjúskaparbrot, en hundrað svipuhögg eru allajafna talin viðeigandi þegar um skírlífisbrot er að ræða.

Fyrir þjófnað skal refsa með fangelsi eða aflimun, þá annað hvort handa eða fóta eftir alvarleika brotsins. T.d. eftir því hversu oft viðkomandi hefur verið handtekinn fyrir þjófnað.

Kannski má gera ráð fyrir að næst muni Ásdís rita grein um dauðarefsingar í þeim löndum íslam þar sem farið er að Sharia-lögunum sem ég efa stórlega að henni þyki óendanlega heillandi þegar allt kemur til alls.

---

Því má annars bæta við til fróðleiks að síðasta aftakan á Íslandi fór fram þann 12. janúar árið 1830 þegar þau Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir voru hálshöggvin í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu fyrir að hafa myrt tvo menn. M.ö.o. eru engar aldir síðan dauðarefsingu var beitt hér á landi eins og Ásdís flaskar á í grein sinni á Sus.is, aðeins rúm 176 ár.

Ásdís segir reyndar í sömu grein að dauðarefsingar hafi fyrir löngu verið aflagðar í flestum Evrópuríkjum. Hvort sem aðeins er um vanþekkingu að ræða, tilraun til að láta Bandaríkin líta illa út í samanburði við Evrópuríki eða bæði þá skulum við skoðum þetta aðeins nánar.

Hér fyrir neðan er listi yfir það sem við getum kallað flest Evrópuríki ásamt ártali sem sýnir hvenær síðasta aftakan fór fram í þeim. Það ber þó að ítreka að þarna er aðeins átt við það hvenær síðast var beitt dauðarefsingu í viðkomandi landi, ekki hvenær ákvæði um slíkt voru máð úr lögum þess sem oftar en ekki hefur gerzt nokkuð síðar. Þannig má nefna að í Frakklandi var dauðarefsing endanlega afnumin árið 1981 og í Bretlandi gerðist það ekki fyrr en 1998 eða aðeins fyrir um 8 árum síðan!

Austurríki (1950)
Belgía (1950)
Bretland (1964)
Búlgaría (1989)
Danmörk (1950)
Eistland (1991)
Finnland (1944)
Frakkland (1977)
Grikkland (1977)
Holland (1954)
Írland (1954)
Ísland (1830)
Ítalía (1947)
Litáen (1995)
Luxemburg (1949)
Malta (1943)
Moldova (1995)
Noregur (1948)
Portúgal (1849)
Pólland (1988)
Rúmenía (1989)
Slóvakía (1990)
Slóvenía (1989)
Spánn (1975)
Svíþjóð (1910)
Sviss (1944)
Tékkland (1990)
Ungverjaland (1988)
Þýzkaland (1949)

(Heimild: Encarta Encyclopedia)

Þetta yfirlit sýnir berlega að það á við engin rök að styðjast að halda því fram að dauðarefsingar hafi fyrir löngu verið afnumdar í flestum ríkjum Evrópu. Þvert á það sem Ásdís heldur fram væri því nær að segja að í flestum Evrópuríkjum sé stutt síðan dauðarefsingar voru aflagðar og í sumum tilfellum mjög stutt.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband