Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 12. júní 2006

Veslings Samfylkingin. Hún skammast endalaust út í ríkisstjórnarflokkana á þeim forsendum að um sé að ræða valdabandalag sem þurfi að koma frá völdum þegar ljóst er að forystumenn flokksins vilja ekkert heitar en að komast í ríkisstjórn með öðrum þessara flokka. Að vísu er talið í þeim efnum út og suður. Fyrir síðustu alþingiskosningar beitti Samfylkingin sér fyrst og fremst gegn Sjálfstæðisflokknum og svo gott sem útilokaði fyrir vikið samstarf við hann eftir kosningar. Hins vegar gerði hún sér dælt við Framsóknarflokkinn. Síðan hefur komið annað hljóð í strokkinn. Ófáir forystumenn Samfylkingarinnar tala nú vel um hugsanlegt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í landsmálunum en virðast á móti vera orðnir afhuga samvinnu við Framsókn.

Þannig sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, eftir nýafstaðinn flokkstjórnarfund flokksins að síðustu sveitarstjórnarkosningar hafi sýnt að samstarf við Framsóknarflokkinn væri ekki vænlegt til árangurs. Alls staðar þar sem Samfylkingin hefði verið í samstarfi við framsóknarmenn hefði hún tapað fylgi. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en að nú eigi að útiloka samstarf við Framsókn. Sá möguleiki verði allavega ekki fyrsti kostur. Sem dæmi um daður við Sjálfstæðisflokkinn er grein Björgvin G. Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, í Blaðinu í dag þar sem hann segir m.a. að Geir H. Haarde, formaður Sjálftæðisflokksins, hafi gefizt upp á að koma flokki sínum í nýja ríkisstjórn með einhverjum öðrum flokki en Framsókn, t.d. Samfylkingunni sem Björgvin segir vaxandi stuðning við í báðum flokkum.

Grein Björgvins er annars furðuleg samsetning svo pent sé til orða tekið. Honum er tíðrætt um að samstarf Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins sé valdabandalag þó staðreyndin sé sú að hann, eins og annað Samfylkingarfólk, hefur lítil efni á slíku tali eftir aðild Samfylkingarinnar að R-listanum í Reykjavík sem án efa er alræmdasta dæmi Íslandssögunnar um pólitískt valdabandalag. Það væri annars efni í sérstaka grein að fjalla um allar þær furður sem finna má í grein Björgvins og sennilega mann í fullu starfi árið um kring að fara með þeim hætti yfir allt það sem frá honum fer. Læt ég nægja að nefna að í lok greinarinnar talar Björgvin hátíðlega um “[ö]flugt starf og stefnumótun innan Samfylkingarinnar síðustu sex árin á vettvangi sveitarstjórna og landsmála ...”

Þessi ummæli Björgvins eru all merkileg í ljósi þess að forysta flokksins hefur nú gengizt við því að niðurstöður síðustu sveitarstjórnarkosninga hafi verið mikil vonbrigði og að sögn formannsins er ástæðan fyrir slöku gengi sú að innra starf flokksins hafi ekki verið að skila sér sem skyldi. Forystan hefur einnig viðurkennt að fylgi flokksins, sérstaklega á undanförnum mánuðum, sé engan veginn ásættanlegt og skyldi engan undra. Þannig hefur fylgið verið innan við kjörfylgi í hverjum mánuði utan tvo samkvæmt skoðanakönnunum Gallup síðan Ingibjörg Sólrún tók við formennsku í flokknum fyrir ári síðan. Að meðaltali hefur það verið 29%. Á sama tíma hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins verið að meðaltali 41% samkvæmt sömu könnunum.

Ég veit því eðli málsins samkvæmt ekki almennilega hvað Björgvin er að tala um. Eins og áður var komið inn á var skipt um formann í Samfylkingunni fyrir ári síðan, en það var gert sérstaklega vegna óánægju með árangurinn af flokksstarfinu. Vonir stóðu til þess að nýr formaður myndi auka verulega á fylgi flokksins en nú ári síðar sjást þess engin merki. Þvert á móti var fylgi Samfylkingarinnar mun oftar í eða yfir kjörfylgi í skoðanakönnunum á meðan Össur Skarphéðinsson var formaður flokksins. Ingibjörg talar nú um að Samfylkingin sé búin að festa sig í sessi sem 30% flokkur þó staðreyndin sé sú að núorðið nái flokkurinn einungis upp í 30% fylgi samkvæmt skoðanakönnunum á góðum degi. Fyrir síðustu þingkosningar setti Samfylkingin reyndar markið á 40% fylgi  og að flokkurinn yrði stærri en Sjálfstæðisflokkurinn og þar með stærsti flokkur landsins. Síðan eru liðin rúm þrjú ár og hefur fylgi flokksins fremur hrakað síðan en hitt eins og áður segir.

En svo fjallað sé áfram um innra starf Samfylkingarinnar þá eru ummæli Björgvins jafnvel enn furðulegri í ljósi þess að Ingibjörg Sólrún hefur ítrekað sagt að þar sé að leita skýringa á lélegu gengi flokksins til þessa. Ekkert virðist þó hafa gerzt í þeim efnum síðasta hálfa árið frá því Ingibjörg Sólrún sagði að til stæði að taka til hendinni þar í ljósi minnkandi fylgis í skoðanakönnunum. Nú hefur Ingibjörg aftur kennt innra starfi Samfylkingarinnar um slakt gengi í sveitarstjórnarkosningunum. Að vísu verður að hafa í huga að Ingibjörgu er tamt að kenna einhverjum öðrum um en sér sjálfri þegar eitthvað bjátar á. Þannig var það ekki henni að kenna að hún varð að hætta sem borgarstjóri Reykjavíkur eftir að hafa gengið svo hressilega á bak orða sinna að fá dæmi eru um annað eins. Nei, það var allt Vinstri-grænum og Framsókn að kenna.

Þegar Samfylkingin náði engu af upphaflegum markmiðum sínum í þingkosningunum 2003 var það allt Össuri Skarphéðinssyni að kenna þar sem hann var formaður flokksins. Engu skipti að kosningabarátta Samfylkingarinnar snerist öll um Ingibjörgu og að Össur hafi að sama skapi varla sést. Eftir að Ingibjörg varð síðan formaður er slæmt gengi í skoðanakönnunum og sveitarstjórnarkosningum ekki Ingibjörgu að kenna heldur innra starfi flokksins, þ.e. hinum almenna flokksmanni. Það er því furðulegt að hlusta á Ingibjörgu nú saka ríkisstjórnina um að kenna öðrum um og sjá ekkert hjá sjálfri sér. En vissulega ber að hafa í huga að hún er ekki beint ókunnug þeirri iðju að kasta steinum úr glerhúsi.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband