Leita í fréttum mbl.is

Ungir Jafnaðarmenn vs. kapítalismi

Ungir jafnaðarmenn opnuðu endurbætta vefsíðu sína í síðustu viku. Við hér á Íhald.is myndum nú alla jafna ekki sérstaklega fjalla um það en óskum þeim hins vegar til hamingju með nýja síðu og óskum þeim alls hins besta þó stjórnmálaskoðanir þær er birtast á pólitík.is séu ekki mörgum til heilla.

Þann fimmtánda þessa mánaðar birtist grein á síðunni. Titill greinarinnar var ,,Kapítalisminn og velferðarríkið” og vonaði ég að með nýju útliti síðunnar hefðu ungir jafnaðarmenn tekið upp nýja hugmyndafræði og kominn væri fram nýtt málsgagn kapítalismans. Svo var þó aldeilis ekki. Það er svo sem í lagi að ungir sósíalistar fjalli um skoðanir sínar og jafnvel hamri á okkur hægrimönnum þyki þeim þeir þurfa þess. Til þess er jú tjáningarfrelsið. Hins vegar eru nokkur atriði röng í greininni. Öðru er ég bara ósammála og ætla að mótmæla.

Kryfjum málið:

Höfundur greinarinnar byrjað hana svona:
Stærsta breytingin við fall kommúnismans var að í kjölfarið var aðeins eitt stjórnkerfi við lýði, hið kapítalíska lýðræði. Eins og sagan sýnir fylgir því yfirleitt mikil hætta þegar eitt kerfi ríkir. Sama hvert það er.

Hvaða saga er það? Hefur einhvern tímann í sögunni verið bara eitt ,,kerfi” í öllum heiminum?

Næst heldur höfundur því fram að það sé í raun komin upp það sem við ,,ný-frjálshyggjumenn” köllum einokunarstöðu hugmyndafræðilega séð. Það sé engin samkeppni milli kommúnismans og kapítalismans. Hann syrgir að það sé engin mótstaða við kapítalismann.

Þetta er heldur ekki rétt. Mótstaðan birtist á hverjum degi t.a.m. á þeirri vefsíðu sem greinin var skrifuð á, pólitík.is. Samkeppnin eða öllu heldur andstaðan birtist einnig í stefnu flokka eins og Samfylkingarinnar, ýmsum fjölmiðlum, skrifum sósíalista og fleira. Það er mjög margir sem hatast út í frelsið og kapítalismann og vilja að hið opinbera hafi afskipti af sem mestu í lífi fólks.

Og baráttan á sér ekki bara stað á hugmyndafræðilegum vettvangi. Það er margt sem betur má fara. Sósíalisminn teygir anga sína allt of langt inn í hið opinbera og skerðir frelsi hins almenna borgara. Hann einnig skerðir það viðskiptafrelsi sem kapítalisminn gerir ráð fyrir til að virkileg velferð geti átt sér stað. Baráttan á sér stað í þingsölum og á sveitastjórnarfundum. Allt of oft hefur hið opinbera sett reglur sem skerða frelsi einstaklinga eins og bent er á hér og hefur jafnan verið gert á þessu vefriti. Þetta tengist allt umræðunni um kapítalisma.

En næst snýr höfundur sér að mikilvægi jafnaðarmannaflokka. Einhvern veginn tengir hann það við hatur sitt á fyrirtækjum og almennum dugnaði. Hann vill að jafnaðarmannaflokkar séu ,,mótvægi”

Orðrétt segir höfundur:
,,...þeir verða að skilgreina þær hættur sem af honum stafa og mynda skjaldborg um þá hagsmuni sem kapítalisminn ógnar.”

Og hann endurspeglar viðhorf sósíalista:
,,Við erum að horfa upp á hið kapítalíska kerfi Vesturlanda þróast með þeim hætti að sá siðspilltasti kemst lengst. Sá sem rekur flesta, kastar umhverfissjónarmiðum fyrir róða, sá sem byggir sprengjur og framleiðir svo steinsteypu til þess að byggja húsin sem sprengjurnar eyðilögðu er sá sem mest græðir. Og á hlutabréfamarkaðnum er það eini mælikvarðinn sem ríkir.”

Bíddu við. Þarf maður að vera siðspilltur til að komast af. Eru allir sem hafa náð árangri í lífinu siðspilltir? Og hvað hlutabréfamarkaðinn varðar. Það eru þúsundir manna bara á Íslandi sem versla á hlutabréfamarkaði daglega. Eru þeir allir glæpamenn í augum sósíalistanna hjá Ungum jafnaðarmönnum? Ef skynsamur fertugur maður kaupir hlutabréf og græðir á því, er hann þá siðspilltur?

Það eru kaldar kveðjurnar sem menn fá frá íslenskum jafnaðarmönnum. Þeim sem vel hefur gengið (þá sérstaklega í viðskiptum) eru allir siðspilltir glæpamenn sem enga ábyrgð taka á neinu nema eigin veski. Rétt er þó að minna höfund á að fyrirtæki gera annað en að reka fólk og spilla umhverfinu. Hversu margir starfsmenn ætli vinni hjá Gaumi, Icelandair, Olís, Skeljungi, Össuri, Alcan og fleiri siðspilltum fyrirtækjum. Fæst fyrirtæki eru búinn að reka alla sína starfsmenn. Hafa Ungir Jafnaðarmenn einhverjar hugmyndir um hvað þeir vilja gera við allt þetta fólk? Ætla þeir að segja fólkinu að það sé að vinna fyrir siðspillta glæpamenn? Þeir gleyma því líka að þetta fólk stundar einnig siðspillta villumenningu á hlutabréfamarkaðnum.

En þetta er ekki búið!

Höfundur greinarinnar vill sjá velferðarríki þar sem öllum eru tryggð ,,grundvallarréttindi” Hann vill að ,,öllum séu tryggð grundvallarréttindi og á þeim grundvelli hefjist allir kapphlaupið.” Og áfram heldur hann og hatast út í hinn frjálsa markað, ,,þessi hugmynd, [...]gengur út á það að samfélag sé í raun ekki til og þess í stað séu bara einstaklingar sem berjast innbyrðis. Að eins og dýrin í dýraríki þá lifi sumir og aðrir deyi, og það sé náttúrulegt að þeir sem sterkastir séu vinni - hinir deyi.”

Getur höfundur bent mér á einhver ,,grundvallarréttindi” sem íslenskir ríkisborgarar eiga ekki rétt á eða aðgang að?

Það er ekki rétt að samfélag sé ekki til. Og það er heldur ekki rétt að einstaklingar þurfi að berjast innbyrðis eins og dýr í dýraríki. Ekki veit ég hvernig þetta er á samkomum Ungra Jafnaðarmanna en fólk getur alveg lifað sómasamlegu lífi án þess að haga sér eins og dýr. Lífið er ekki kapphlaup sem einhver þarf að vinna. Það þarf í raun engin barátta að eiga sér stað. Hins vegar eru dugnaður, skynsemi og frelsi orð sem Ungir Jafnaðarmenn ættu að kynna sér. Þó að einhver nái árangri í lífinu er sá hinn sami ekki endilega að brjóta á einhverjum öðrum, hvað þá að berjast við hann eða stela frá honum. Markaðurinn er ekki lokaður hringir sem deilist jafn niður á alla. Hann getur endalaust stækkað.

Og þá kemur það besta.

Höfundur skrifar:
,,Það er ekki einfalt að standa af sér endalausan áróður stórfyrirtækja, fjölmiðla [...], hagfræðinganna sem eru búnir að skilgreina fyrir okkur heim sem aðeins gengur út á krónur og aura. En að standast þennan áróður er akkúrat það sem nútíma jafnaðarmannaflokkur verður að gera til þess að geta staðið undir nafni.”

Hvaða áróður? Væri ekki í lagi að nefna það.

Og áfram... ,,Stór skref í þessa átt var stigið í Samfylkingunni með Framtíðarhópunum. Þar fór fram umræða um stefnur framtíðarinnar fyrir jafnaðarmannaflokk framtíðarinnar. Og þrátt fyrir tilraunir fjölmiðla, pólitískra andstæðinga, sumra innanflokksmanna og annarra sem hagsmuna hafa að gæta að þessar umræður verði aldrei að stefnu Samfylkingarinnar, þá er þetta einhver merkilegasta gjörð íslensks stjórnmálaflokks fyrr og síðar.”

Í fyrsta lagi og aftur, skref gegn hvaða áróðri? Það er reyndar týpiskt fyrir Samfylkinguna að ,,hefja umræðu gegn einhverju” sem enginn veit hvað er. Og í öðru lagi, er það ,,merkilegasta gjörð íslensk stjórnmálaflokks fyrr og síðar” að stofna umræðu eða stefnuhóp (sem litlu sem engu hefur skilað). Gott og vel. The beauty is in the eye of the beholder.

Og hér kemur það allra besta...
,,En þetta var hugmyndin sem Samfylkingin kom fram með undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Ein valdamesta manneskja á landinu kom fram með hugmynd sem í raun snérist um að minnka völd hennar!”

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var varaþingmaður þegar ,,Framtíðarhópurinn” var settur á laggirnar þannig að hún var ekki ,,ein valdamesta manneskja á landinu.”
En í sama samhengi má minnast á það að enginn stjórnmálamaður hefur unnið að því að ,,minnka völdin sín” eins og Davíð Oddsson. Og í hvert skipti sem völdin hafa átt að minnka hafa vinstri menn beitt sér gegn því.

En af hverju er ég að velta mér upp úr skrifum þessa ágæta unga manns. Jú, ég lít svo á að það sem fram kemur á www.politik.is endurspegli sjónarmið Ungra Jafnaðarmanna og að skrif þessi séu lýsandi fyrir sjónarmið þeirra. Hatur á markaðnum, fyrirtækjum, velgengni, dugnaði og frelsi einstaklingsins.

En allavega, góða helgi...

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband