Leita í fréttum mbl.is

Velferð fólks meiri í Bandaríkjunum en í Evrópusambandinu

Hver kannast ekki við fullyrðingar ófárra á vinstrivæng stjórnmálanna, bæði hér heima og erlendis, að í kapitalísku markaðshagkerfi Bandaríkjanna þrífist meiri eymd en annars staðar í hinum vestræna heimi? Á sama tíma er hið sósíalíska barnfóstrusamfélag, sem víðast hvar er til staðar í einni eða annarri mynd í Vestur-Evrópu, lofsungið sem það fyrirkomulag sem leiði til mestra allsnægta og hámarks velferðar fyrir almenning. En er þetta raunverulega svo? Lítum aðeins nánar á málið.

Sumarið 2004 sendi sænska rannsóknarstofnunin Timbro frá sér ítarlega skýrslu sem unnin hafði verið fyrir hana af tveimur virtum sænskum hagfræðingum, dr. Fredrik Bergström og Robert Gidehag. Í skýrslunni, sem ber heitið „The EU vs. USA“, er efnahagur Evrópusambandsins borinn saman við stöðu efnahagsmála í Bandaríkjunum og kemur m.a. fram í niðurstöðum hennar að flest aðildarríki Evrópusambandsins séu fyrir neðan það sem telst til meðal lífsgæða í ríkjum Bandaríkjanna. Flestir Bandaríkjamenn njóti fyrir vikið lífsgæða sem meirihluti íbúa Evrópusambandsins muni aldrei komast í tæri við og ef sambandið væri hluti af Bandaríkjunum myndi það tilheyra fátækasta hluta þeirra.

Þannig má nefna að hlutfall Bandaríkjamanna, sem teljast undir fátæktarmörkum, var 12% árið 2004 miðað við 22% árið 1959. Árið 1999 töldust 25% bandarískra heimila hafa „lágar tekjur“ sem þýðir að þau höfðu minni heildartekjur en 25 þúsund Bandaríkjadali á ári. Ef Svíþjóð – sem gjarnan hefur verið talið hið dæmigerða evrópska velferðarríki – væri metið samkvæmt sama mælikvarða yrði niðurstaðan sú að 40% sænskra heimila teldust hafa lágar tekjur. M.ö.o. er hugtakið “fátækt” einfaldlega afstætt.

Í Bandaríkjunum eiga rúmlega 45% “fátækra” eigið heimili, um 73% þeirra eiga einkabíl og 77% búa við loftræstingu á heimilum sínum sem telst til munaðar víðast hvar í Vestur-Evrópu. Meðal íbúðastærð “fátækra” Bandaríkjamanna eru rúmlega 110 m2 á meðan meðal íbúastærð íbúa Evrópusambandsins almennt er um 93 m2. Skýrslan er þannig fyrir margt mjög áhugaverð og sýnir hvað ófáir Evrópumenn hafa miklar ranghugmyndir um bandarískt samfélag - að þessu leyti a.m.k. - hver sem ástæðan fyrir því annars er. Því má auk þess bæta við að samkvæmt UNICEF voru 3 milljónir manna heimilislausar í Evrópusambandinu árið 1998 á sama tíma og það átti við um aðeins 750 þúsund Bandaríkjamenn. Þrátt fyrir það bjuggu þá mun fleiri í Bandaríkjunum en í aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Efnahagslíf Evrópusambandsins er einfaldlega langt á eftir efnahagslífi Bandaríkjanna eins og fleiri hafa reyndar gert sér grein fyrir, s.s. Eurochambres, hagsmunasamtök smáfyrirtækja í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Samkvæmt rannsókn sem unnin var fyrir samtökin, og greint var frá á síðasta ári, er sambandið heilum 20 árum á eftir Bandaríkjunum í efnahagsmálum. Rétt er að geta þess að bæði í þessari rannsókn og í þeirri sænsku hér á undan er aðeins miðað við þau 15 aðildarríki Evrópusambandsins sem voru aðilar að sambandinu fyrir stækkun þess til austurs árið 2004 og þ.a.l. eru hin nýju aðildarríki í Austur-Evrópu, sem mörg hver eru tiltölulega fátæk á vestrænan mælikvarða, ekki tekin inn í myndina.

En hvað veldur þessum mun að mati skýrsluhöfundanna? Jú, eina skýringin að þeirra sögn eru þær miklu hömlur sem hin evrópsku velferðarríki setja flest hver á efnahagslíf sín, bæði fyrirtæki og einstaklinga og þá einkum og sér í lagi í formi hárra skatta og mikils reglugerðafargans, sem draga úr hagvexti, auka atvinnuleysi og minnka almennt séð lífgæði fólks. Það er því kannski ekki að furða að gert sé ráð fyrir því að hlutur Evrópusambandsins í heimsviðskiptunum muni dragast stórlega saman á næstu áratugum á meðan Bandaríkin muni halda sínu.

Glæpatíðni í Bandaríkjunum
Þessu tengt mætti síðan koma inn á aðra goðsögn sem margir Evrópumenn hafa um Bandaríkin, þ.e. að hvergi sé hærri glæpatíðni en einmitt þar. Niðurstöður brezkrar rannsóknar frá árinu 2003 sýndu að flestar tegundir glæpa eru algengari í Evrópu en í Bandaríkjunum. Þannig kom t.d. í ljós að innbrot væru þrisvar sinnum algengari í Danmörku en í Bandaríkjunum miðað við höfðatölu, rán 66% algengari í Frakklandi og líkurnar á að verða fyrir árás meiri í Bretlandi en í Bandaríkjunum.

Í skýrslunni kom ennfremur fram að á meðan skráðum afbrotum fækkaði um 10% í Bandaríkjunum á árunum 1997 til 2001 fjölgaði þeim í aðildarríkjum Evrópusambandsins um 4%. Fram kom í fjölmiðlum að bandarískir sérfræðingar teldu engann vafa á því að þyngri fangelsisdómar og bætt löggæzla árin á undan hefðu leitt til þess að glæpum fækkaði í Bandaríkjunum.

Að lokum vil ég vekja athygli á að Sindri Guðjónsson hefur áður fjallað um þessi mál í grein hér á Íhald.is og má nálgast hana hér.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband