Leita í fréttum mbl.is

Friður í Evrópu – II.hluti

Fyrir tveimur dögum skrifaði ég fyrri hluta langrar greinar sem fjallar um ástæðu friðar í Evrópu. Vegna lengdar greinarinnar finnst mér heppilegast að hafa hana í tveimur hlutum. Eins og fram kemur í fyrra hlutanum hafna ég þeirri tillögu að friður í Evrópu sé evrópusamrunanum að þakka. Margir vilja meina að sú samrunaþróun sem átt hefur sér stað í Evrópu hafi stuðlað að friði í Evrópu en ég vil meina að það liggi aðrar ástæður að baki því að friður hefur ríkt að mestu í álfunni.

Í fyrri hlutanum nefndi ég tvö atriði. Í fyrsta lagi það að Evrópa átti sér einn sameiginlegan óvin, Sovétríkin og hugsanlega árás Sovétríkjanna inn í Evrópu. Í öðru lagi mikla veru Bandaríkjamanna í Evrópu. Á meðan bæði Bandaríkjamenn og Evrópuþjóðirnar mynduðu bandalag gegn Sovétríkjunum hefðu Bandaríkjamenn aldrei sætt sig við átök innan Evrópuríkjanna.

Í dag birti ég ,,hinar” tvær ástæðurnar sem ég tel að hafi haldið friðinn í Evrópu s.l. sextíu ár.

3. Hlutverk Atlantshafsbandalagsins

Í framhaldi þess að hafa fjallað um sameiginlegan óvin í austri og veru öflugs herliðs Bandaríkjamanna í Evrópu er nauðsynlegt að líta á hlutverk Atlantshafsbandalagsins (NATO) í því að tryggja að friður haldist í Evrópu. Atlantshafsbandalagið var fyrst og fremst varnabandalag vesturveldanna gegn ógninni í austri. Hins vegar undirrituðu öll aðildarríki bandalagsins sáttmálann með það að leiðarsljósi að sameinast um varnir ríkjanna ef til þess kæmi. Skýrt kemur fram í 5. grein sáttmálans að litið er á árás á eitt ríki sambandsins sem árás á þau öll. [1] Aftur komum við að því að það þjónaði ekki hagsmunum nokkurs ríkis á meginlandi Evrópu að ráðast á annað ríki í Evrópu. Varnarbandalag sem þetta hafði ekki verið myndað áður með eins sterkum hætti enda tíðarandinn orðinn annar. Einnig er ekki hægt að líta framhjá hlutverki Breta í því að tryggja frið í Evrópu. Bretar voru ein af stofnríkjum Atlantshafsbandalagsins en komu nokkru síðar inn í evrópusamrunann.

Ekki telst frekari þörf á að benda á hlutverk Atlantshafsbandalagsins að friðarferlinu í Evrópu en ljóst er að hagsmunir ríkjanna, markmið að friði og vera bandarísks herliðs í Evrópu sameinast undir Atlantshafsbandalaginu.

4. Lýðræði

Óhætt er að fullyrða að aukin lýðræðisþróun í Evrópu að lokinni síðari heimsstyrjöldinni spilar veigamesta hlutverkið í friðarferlinu í álfunni. Eins og minnst var á í upphafi var Evrópa djúpsærð eftir tvær styrjaldir á stuttum tíma. Öllum var ljóst að byggja yrði Evrópu upp á nýtt eftir það niðurrif sem styrjaldirnar hefðu valdið. Til að þetta gæti gerst var tvennt sem varð að tryggja, í fyrsta lagi lýðræði og í öðru lagi almenna velmegun.

Ekki eru dæmi um það í sögunni að lýðræðisríki hafi hafið stríð gegn öðru lýðræðisríki. Hitler var einræðisherra sem hafði lagt Þýskaland undir sig og notað það vopna- og mannafl sem í boði var til að heyja styrjöld. Hitler hafði tekist að nýta sér það slæma efnagahagsástand sem myndaðist í Þýskalandi eftir fyrri heimsstyrjöld. Versalasamingurinn gekk meira og minna út á að refsa Þjóðverjum og gerði það að verkum að efnahagur landsins varð mjög lélegur og kjör almennings slæm.

Evrópuríkin gerðu sér grein fyrir því að til að tryggja stöðugan frið í Evrópu yrði að bæta kjör almennings. Þess vegna var farið út í að mynda bandalög um viðskipti. Bætt kjör almennings myndu leiða til minnkandi óánægju og koma í veg fyrir að menn eins og Hitler næðu völdum á ný í einhverju af evrópuríkjunum.

Að sama skapi eins og áður hefur komið fram var markmiðið að byggja upp Evrópu. Lýðræði komst á í flestum ríkjum Evrópu [2] og á því var Evrópa byggð upp á nýtt. Markmiðið var það sama og allir gerðu sér grein fyrir því að þau ágreiningsefni sem ef til vill kæmu upp yrðu leyst á vettvangi stjórnmála en ekki með vopnavaldi. Þarna líkt og áður gengdu Bandaríkin veigamiklu hlutverki. Litið var (réttilega) á kommúnismann sem ógn við lýðræðið og þar með ógn við stöðugleikann og friðinn. Ef við gefum okkur umræðunnar vegna að einhver stjórnmálaleiðtogi hefði viljað fara í stríð þá er næstum hægt að útiloka að honum hefði tekist ætlunarverk sitt þar sem enginn einn aðili hafði slíkt vald á hendi sér. Í hálfa öld hafa völd stjórnmálamanna minnkað og því að miklu leyti ógerlegt að heyja stríð milli lýðræðisþjóða.

En sem sagt, lýðræði og velferð var og er lykillinn að friði og stöðugleika. [3] Evrópusamruni spilaði stórt hlutverk í að tryggja velferðina en lýðræðið kom með breyttum tímum, nýjum tíðaranda og því frelsi sem þjóðirnar vildu mynda sér.

Og að lokum...

Evrópusamvinna með það að markmiði að stuðla að friði í Evrópu er í sjálfu sér göfugt markmið sem ekki er hægt að gera lítið úr. Evrópusamruni var á fyrstu árum eftir seinna stríð mjög auðveld ,,söluvara”. Evrópubúar þráðu frið meira en nokkuð annað og með loforðinu um frið í Evrópu og með hagsæld almennings að leiðarljósi sáu menn ekki ástæðu til að setja sig upp á móti slíku. Hafa ber þó í huga að hugmyndir að samruna voru komnar fram áður en seinna stríðið byrjaði. Ég tel þó að þær hugmyndir hafi verið viðskiptalegs eðlis, það er að menn vildu búa til markað líkan því sem EFTA síðan stóð fyrir.

Hugmyndin að friði hefur ekki alltaf verið leiðarsljós evrópusamrunans. Ríki Evrópu vildu sjá fríverslunarsamninga og vissu að slíkir samningar myndu opna markaði frekar og leiða til velmegunar íbúa ríkjanna. Eins og komið hefur hér fram fór hugmyndin um friðarferli í Evrópu fyrir lítið þegar líða tók á árin eftir seinna stríð. Það sýnir sig best með stofnun EFTA en slíkur samningur hefur ekkert að gera með hugmyndir um vopnuð átök heldur snýst eingöngu um viðskipti milli ríkjanna og niðurfellingu hindrana á viðskiptum. Þó svo að flest EFTA ríki séu nú gengin í ESB hefur samningurinn það táknræna gildi að mínu mati að hann sannar að ríkin voru að leita eftir meiri viðskiptum en ekki friði. Friðurinn var fundinn og kominn í höfn.

Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að evrópusamruninn og ESB eitt og saman getur ekki komið í veg fyrir borgarastyrjöld. Fyrir hálfri öld framleiddu ríkin að mestu vopn sín sjálf. Því var greinilegt að evrópuríkin sem tekið höfðu þátt í styrjöldunum höfðu ekki bolmagn til að fara út í annað stríð, fyrir utan það er ekki er víst að nokkur hefði viljað slíkt. Í dag eru vopn hins vegar meira og minna aðkeypt þannig að lítið mál er að hefja stríð. En ennþá eru það sameiginleg markmið og lýðræði sem heldur friðinn í Evrópu. Aftur skal minnt á það að lýðræðisríki fara samkvæmt venjunni ekki í stríð við hvor aðra.

Þá er ekki ósanngjörn spurning hvort að tilgangur evrópusamrunans sé gengin úr gildi. Þeir sem að honum stóðu á sínum tíma voru menn sem upplifað höfðu tvær hræðilegar styrjaldir og þráðu eins og áður var sagt frið og velmegun. Í dag hafa orðið kynslóðaskipti. Það er engin kommúnista eða nasistaógn sem steðjar að ríkjum Evrópu. Reyndar er hryðjuverkaógnin ríkjandi en allar þjóðir heims takast á við hana og þá er spurning hvort að sú barátta sé háð á vettvangi SÞ og með sterkri samvinnu ríkja án þess þó að um samruna sé að ræða.

Alveg sama hvaða álit menn hafa á Evrópusambandinu eða samruna evrópuríkja þá voru og eru hugmyndir að frjálsu markaðssvæði og friði í álfunni þess verðar að mark sé takandi á þeim. Hins vegar er ekki hægt að fullyrða að markmiðið með samrunaum hafi eingöngu verið sá að stuðla að friði.

Hvort að Evrópusambandið sé síðan að starfa í þeim anda í dag er svo efni í aðra grein.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


[1] http://www.nato.int/docu/other/ic/treaty-ic.htm Tekið af opinberri vefsíðu Atlantshafsbandalagsins.

[2] Þau sex ríki sem mynduðu Kol og Stálabandalagið voru öll lýðræðisríki

[3] Stephen M. Walt, One world, many theories.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband