Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 27. marz 2006

Maður að nafni Abdul Rahman, sem beðið hafði dóms í Afganistan fyrir að hafa sagt skilið við íslam og tekið kristni fyrir 16 árum, hefur verið látinn laus vegna „skorts á upplýsingum“ og „fjölda lögformlegra galla“ á málinu. Áður hafði hæstiréttur landsins, þar sem íslamistar ráða lögum og lofum, ætlað að dæma manninn til dauða fyrir að hafa hafnað íslam. Í stjórnarskrá landsins er kveðið á um trúfrelsi, en í henni er líka kveðið á um að engin lög í landinu megi brjóta í bága við íslam og þar með Sharia-lögin sem m.a. kveða á um að þjófum skuli refsað með aflimun, konur eigi að hylja líkama sinn frá hvirfli til ilja og skuli grýttar fyrir framhjáhald. Refsingin fyrir að hverfa frá íslam er hins vegar dauði og það er sú refsing sem stóð til að beita Rahman.

Vestræn ríki höfðu ítrekað hvatt stjórnvöld í Afganistan til að sjá til þess að Rahman yrði ekki tekinn af lífi, sem aftur mun hafa leitt til þess að hann var látinn laus. Rahman er þó enn ekki laus allra mála því málið hefur verið sent aftur til saksóknara til frekari rannsókna. Hæstaréttardómarinn í málinu, Ansarullah Mawlafizada, hefur ítrekað mótmælt afskiptum stjórnvalda af málinu og sagt að þau hefðu ekkert vald til þess þar sem dómstólar landsins væru sjálfstæðir gagnvart framkvæmdavaldinu. Varaði hann Hamid Karzai, forseta Afganistan, við því að afskipti hans myndu leiða til uppreisnar í landinu - heilagt stríð. Sagði dómarinn að eina leiðin fyrir Rahman, til að komast hjá dauðarefsingu, væri að hann tæki upp íslam á ný, en það hafði Rahman þvertekið fyrir og sagst tilbúinn að deyja yrði hann dæmdur til þess.

En hvað sem líður niðurfellingu á máli Rahmans vegna alþjóðlegs þrýstings þá var vilji dómaranna skýr. „Höfnun á íslam er móðgun við guð. Höggvið af honum höfuðið!“ hafði brezka dagblaðið Telegraph eftir múslimaklerkinum Abdul Raoulf við Herati moskuna í Kabul. „Spámaðurinn Múhameð hefur margoft sagt að þeir sem hverfa frá íslam skuli drepnir ef þeir neita að snúa til baka. Íslam eru trúarbrögð friðar, umburðarlyndis, góðvildar og heiðarleika. Þess vegna höfum við sagt honum [Rahman] að ef hann iðrast þess sem hann hefur gert þá munum við fyrirgefa honum,“ hafði BBC eftir Mawlafizada hæstaréttardómara. M.ö.o. eru skilaboðin þessi: „Gerðu eins og við segjum þér eða við drepum við þig.“ Umburðarlyndi? Friður? Einmitt!

Það sem hefur annars gert stöðuna enn erfiðari fyrir Karzai forseta að sögn BBC er að svo virðist sem mikill meirihluti Afgana sé þeirrar skoðunar að Rahman hafi brotið af sér og eigi fyrir vikið skilið að verða líflátinn. Óhjákvæmilega kemur upp í hugann nýleg skoðanakönnun í Bretlandi þar sem 40% brezkra múslima vildu að Sharia-lögin yrðu tekin upp á þeim svæðum í landinu þar sem múslimar eru í meirihluta. Einhverjir hafa haldið því fram að þetta sýni að múslimum finnist þeir ekki hluti af brezku samfélagi, en aðrir hafa hins vegar bent á að mikil áherzla hafi verið lögð á það á undanförnum árum að gera múslimum og öðrum innflytjendum kleift að verða hluti af samfélaginu, en þrátt fyrir það sé niðurstaðan þessi. Niðurstöður könnunarinnar bendi heldur ekki beint til mikils vilja til að aðlagast brezku samfélagi.

Á sama tíma berast fréttir af vaxandi gyðingahatri víða í Evrópu, ekki sízt í Frakklandi þar sem finna má stærsta gyðingasamfélag í álfunni. Um þetta var m.a. fjallað í Staksteinum Morgunblaðsins á laugardaginn. Þar sagði m.a. að í úthverfum Parísar, þar sem innflytjendur frá Norður-Afríku byggju, væri orðið gyðingur skammaryrði. Vitnað er í dagblaðið International Herald Tribune frá því á föstudaginn þar sem kom fram að andúð á gyðingum væri alvarlegt vandamál hjá annarri kynslóð innflytjenda í Frakklandi. Einn viðmælandi blaðsins, ungur blökkumaður, hafði þetta um málið að segja í samtali við það: „Annars vegar eru blökkumenn og arabar, hins vegar gyðingar.“

Fram kom að gyðingar væru af þessum sökum farnir að flýja í stórum stíl frá Frakklandi til Ísraels og að gyðingabörn gætu ekki gengið í skóla hvar sem er. En það sem er kannski mest athyglisvert eru ummæli eins viðmælenda International Herald Tribune, Barbara Levébvre, kennara, sem segir að ávallt hafi verið hart brugðist við þegar gyðingahatur hafi komið frá öfgahópum, þá væntanlega meðal innfæddra Frakka, en þegar slíks varð vart á meðal fólks af erlendum uppruna hafi allir látið eins og þeir tækju ekki eftir því. Þetta er því miður ekkert einsdæmi og er þekkt annars staðar í Evrópu þar sem múslimar eru fjölmennir eins og t.a.m. í Svíþjóð og Danmörku.

Í Fréttablaðinu 23. október 2003 var greint frá niðurstöðum sænskrar rannsóknar sem benti til þess að gyðingahatur væri mjög útbreitt á meðal nemenda af múslímskum uppruna í sænskum skólum og mun meira vandamál en áður hafði verið talið. Ennfremur að gyðingahatur á meðal þessa hóps væri ekki litið jafnalvarlegum augum og gyðingahatur sem ætti rætur sínar í t.a.m. nýnasisma. Þeir sem stóðu að rannsókninni voru tveir fræðimenn við háskólann í Lundi í Svíþjóð; Sverker Oredsson, prófessor, og Mikael Tossavainen frá Sögustofnun háskólans.

Í viðtölum við kennara komust fræðimennirnir að því að kennslu um síðari heimstyrjöldina, eða um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, væri oft tekið með ofsafengnum mótmælum og slagorðum sem bæru vott um brennandi hatur á gyðingum. Kennari frá Gautaborg hélt því fram að arabískir og aðrir múslímskir nemendur sínir litu á það sem sjálfsagðan hlut að halda því fram „að það hefði verið gott hjá Hitler að myrða gyðingana og verst að honum skyldi ekki takast að drepa fleiri“.

Haft var eftir Lise Egholm, yfirkennara við Raadmandsgade Skole á Norðurbrú í Kaupmannahöfn, að margt benti til þess að sama ástand væri í skólum í Danmörku. „Ef trúuð gyðingafjölskylda væri að hugsa um að koma með börn sín til okkar hingað í skólann mundi ég ráða fjölskyldunni frá því,“ sagði hún og bætti við að í skólanum væru 80% nemenda af múslímskum uppruna. „Margir nemenda okkar hafa palestínskan bakgrunn, og ég veit að það myndu hljótast af því vandræði ef gyðingabarn kæmi í þennan skóla. Þannig er veruleikinn. Svo getum við öll þóst vera pólitískt meðvituð og haldið því fram að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir – en veruleikinn er samt eins og hann er. Því miður held ég að ástandið í dönskum skólum sé ósköp svipað því ástandi sem rannsóknin lýsir í Svíþjóð.“

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband