Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 20. marz 2006

Það er orðið nokkuð síðan maður heyrði íslenzka Evrópusambandssinna halda því fram að einhverju marki að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) væri að líða undir lok hvað úr hverju, hefði ekki fylgt þróuninni innan Evrópusambandsins og hvað þetta hét nú allt saman. Ástæðan er líklegast sú að þeir séu smám saman að átta sig á því sjálfir að aðeins sé um þeirra eigin óskhyggju að ræða en ekki staðreyndir, enda hafa þeir aldrei getað fært nein haldbær rök fyrir því að EES-samningurinn eigi við einhvern lasleika að stríða þegar óskað hefur verið eftir þeim – sem hefur ítrekað verið gert.

Það hefur einmitt þvert á móti verið ítrekað staðfest á undanförnum árum af aðilum EES-samningsins að hann sé við hestaheilsu. Gildir þá einu hvort um er að ræða íslenzk stjórnvöld, norsk stjórnvöld, ráðherraráð EES eða Evrópusambandið. Nú síðast kom þetta skýrt fram bæði í opinberri heimsókn Geirs Haarde, utanríkisráðherra, til Noregs og í máli Richards Wright, umsjónarmanns samskipta Evrópusambandsins við EFTA ríkin, í heimsókn hans til Íslands í síðustu viku. Hvað Noreg annars áhrærir er athyglisvert að núverandi vinstristjórn telur að rekstur EES-samningsins gangi vel rétt eins og hægristjórnin sem var við völd á undan henni.

Svo haldið sé áfram um Norðmenn þá má einnig geta þess að enginn er kominn til að segja að dagar EES-samningsins yrðu taldir jafnvel þó Norðmenn tækju upp á þeirri vitleysu að ganga í Evrópusambandið eins og sumir eiga það til að fullyrða. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur m.a. bent á að þegar verið var að semja um EES-samninginn fyrir rúmum áratug síðan bjuggust allir við því að Norðmenn myndu samþykkja aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 1994, þá ekki sízt ráðamenn í Brussel. Þrátt fyrir það var engan bilbug að finna á þeim sem stóðu að samningaviðræðunum að halda þeim áfram. M.ö.o. er aðild Norðmanna að EES-samningnum engin forsenda fyrir áframhaldandi tilvist hans. Þess utan er auðvitað ekkert sem bendir til þess að Norðmenn eigi eftir að ganga í Evrópusambandið.

Ég er raunar þeirrar skoðunar persónulega að við Íslendingar gætum hæglega staðið fyrir utan Evrópusambandið án EES-samningsins og er þar sammála t.a.m. Ragnari Árnasyni, hagfræðiprófessor, og fleirum. Hins vegar sef ég ágætlega þrátt fyrir aðild Íslands að EES-samningnum, enda felur hann auðvitað í sér margfalt skárra hlutskipti fyrir Ísland en nokkurn tímann Evrópusambandsaðild, enda himinn og haf þar á milli eins og margoft hefur verið bent á. Nóg ætti að vera að nefna að EES-samningurinn tekur aðeins til innri markaðar Evrópusambandsins og hefur fyrir vikið aðeins með lítið brot af lagasetningu þess að gera.

Raunin er einfaldlega sú að íslenzkir Evrópusambandssinnar, sem á sínum tíma sáu EES-samninginn fyrir sér sem leið til að koma Íslandi inn í Evrópusambandið um bakdyrnar, hafa nú á undanförnum árum farið að upplifa samninginn sem hindrun í vegi þess að koma okkur inn í sambandið. Því vilja þeir hann feigan og hafa reynt að grafa undan honum á alla lund með ótímabærum sjúkrasögum og andlátsspám. Eins og áður segir er hér þó aðeins um að ræða óskhyggju þessara aðila sem sést einna bezt á því að aldrei hefur verið hægt að sýna fram á að hún ætti við einhver rök að styðjast.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

(Birtist einnig í Blaðinu 21. marz 2006)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband