Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 30. janúar 2006

Forysta Samfylkingarinnar segist vilja lækka virðisaukaskatt á matvælum hér á landi og er auðvitað alltaf góða gjalda vert þegar rætt er um skattalækkanir hver svo sem það gerir. Helzti gallinn við hugmynd Samfylkingarinnar er hins vegar sá að það er svo gott sem útilokað að flokkurinn muni nokkurn tímann beita sér fyrir því að hún verði framkvæmd jafnvel þó flokkurinn kæmist í ríkisstjórn. Samfylkingin er nefnilega ekki í eðli sínu flokkur skattalækkana þó forystumenn hans slái um sig með yfirlýsingum í þá veru annað slagið í von um að ná einhverju fylgi frá Sjálfstæðisflokknum. Framganga Samfylkingarinnar í R-listasamstarfinu í Reykjavík á undanförnum árum hefur sýnt svo um munar að flokkurinn er þvert á móti – rétt eins og allir aðrir vinstriflokkar – flokkur skattahækkana.

Hugmyndir Samfylkingarinnar ganga annars út á að lækka virðisaukaskattinn á matvælum (það sem flokkurinn kallar jafnan matarskattinn til að ná betur til fólks) úr 14% og niður í 7%. Þetta er nokkuð sérstakt í ljósi þess að á sama tíma vill flokkurinn að Ísland gangi í Evrópusambandið. Ef það gerðist að Ísland gerðist aðili að sambandinu myndu íslenzk stjórnvöld þar með skuldbinda sig, líkt og stjórnvöld í öðrum aðildarríkjum sambandsins, til að hafa virðisaukaskatt á allri þjónustu og vörum á bilinu 15-25%. Að vísu er mögulegt að fá undanþágur frá þeirri reglu en það yrðu öll aðildarríkin að samþykkja einróma samkvæmt reglum Evrópusambandsins. Þess utan er það auðvitað vel þekkt staðreynd að hvers kyns undanþágur frá meginreglum sambandsins eru ekki í boði heldur í mesta lagi einhvers konar tímabundinn aðlögunartími.

Út af fyrir sig eru það auðvitað engar fréttir að Samfylkingin tali í hringi og að lítið samhengi sé í stefnumálum flokksins og yfirlýsingum forystumanna hans. Sem aftur er sjálfsagt skýringin á því hversu fylgið hefur hrunið af flokknum á undanförnum mánuðum eða allt frá því Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var kjörin formaður hans í maí á síðasta ári. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun á fylgi stjórnmálaflokkanna, sem gerð var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið, mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 44,7% fylgi en Samfylkingin ekki nema 23,6%. Þetta eru nýjar lægðir fyrir Samfylkinguna og verður að fara einhver ár aftur í tímann til að finna jafn lélega útkomu hjá flokknum í skoðanakönnun. Munurinn á flokkunum tveimur er rúmt 21%.

Það er því varla að furða að margir klóri sér í kollinum og furði sig á því hvers vegna flokksmenn í Samfylkingunni voru að skipta um formann á síðasta ári. Ingibjörg Sólrún átti víst að rífa fylgi flokksins upp og gera hann að stærsta stjórnmálaflokki landsins. Eitthvað sem virðist vera eina raunverulega stefnumál hans. Eins og staðan er í dag virðist það ekki beint vera að fara að gerast. Það verður annars fróðlegt að sjá hver niðurstaðan verður í skoðanakönnun Gallup á fylgi flokkanna í janúar sem væntanlega verður birt upp úr næstu mánaðarmótum.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband