Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 21. ágúst 2006

Ofbeldisfull mótmæli nokkurra andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar undanfarna daga fær mann til að velta fyrir sér hvernig fámennur hópur öfgamanna getur komið óorði á mun stærri hóp hófsamra einstaklinga. Ég er viss um að flestir íslenzkir umhverfisverndarsinnar geta engan veginn fallizt á þær ofbeldisfullu aðferðir sem öfgamennirnir fyrir austan beita þessa dagana. Ekki kannski sízt vegna þess að það er gefið mál að margir muni líta á ofbeldismennina sem dæmigerða umhverfisverndarsinna og andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar sem þeir eru þó alls ekki að mínu mati - eða það vona ég allavega ekki með þeirra eigin hagsmuni fyrst og fremst í huga.

Staðreyndin er einfaldlega sú að öfgar skila aldrei neinu. Það er sama hvaða mál er annars vegar í því sambandi. Ofbeldismennirnir fyrir austan munu ekki ná neinum árangri með aðgerðum sínum öðrum en að skemma enn frekar þá ímynd sem umhverfisverndarsinnar hafa hér á landi. Þessi ofbeldisverk höfða án efa ekki nema í bezta falli til þröngs hóps á vinstrivængnum sem tilbúinn er að samþykkja slíka öfga og skemmdarverk - og þegar hefur verið sannfærður.

Það vantar þó ekki að ófáir forystumenn íslenzkra vinstrimanna stígi fram á sviðið og mótmæli því sem þeir kalla aðför að tjáningarfrelsi ofbeldismannanna. Bæði vinstri-grænir og Samfylkingin sáu ástæðu til að álykta sérstaklega í þá veru. Samfylkingin sá sér vitaskuld ekki annað fært en að fylgja í kjölfar vinstri-grænna í þeim efnum, enda hefur forysta Samfylkingarinnar tekið þann pól í hæðina undir það síðasta að líta á vinstri-græna sem sinn höfuð andstæðing og samkeppnisaðila.

Stefán Pálsson, arftaki titilsins mótmælandi Íslands, var spurður að því í Blaðinu sl. föstudag hvort hann teldi virkjanaframkvæmdir nýtt hernám (þegar herinn verður farinn þurfa herstöðvaandstæðingar vitaskuld að finna sér nýtt áhugamál). Stefán svaraði: "Ég ætla nú ekkert að segja um það, en það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir alla sem taka þátt í pólitískri baráttu þegar verið er að brjóta á rétti fólks til að mótmæla og funda."

Það er nefnilega það. Hvorki Stefán, félagar hans í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði né Samfylkingin hafa hins vegar áhyggjur af rétti fólks til að sinna atvinnu sinni í friði eða rétti fólks til að þurfa ekki að þola það að eignir þeirra séu skemmdar eða slegið sé upp tjaldbúðum á þeim án þess að fá til þess leyfi fyrst. Vinstrimenn hafa að vísu aldrei verið miklir áhugamenn um eignarréttinn minnugir orða guðföður síns, Karls Marx, um að eign sé þjófnaður.

Staðreyndin er einfaldlega sú að það er enginn að banna einum eða neinum að mótmæla ef það er gert á friðsamlegan hátt og í samræmi við leikreglur lýðræðisins. En um leið og farið er út á brautir ofbeldis og skemmdarverka eru menn komnir langt yfir strikið og á það er ekki hægt að fallast þó vinstri-grænir og Samfylkingin telji það vera í góðu lagi.

Það er einfaldlega ekki hægt að fallast á það að ekkert sé gert í því ákveði einhverjir aðilar að víkja til hliðar lýðræðislegum leikreglum vegna þess að þeir telji sig ekki ná nægilegum árangri með því að fylgja þeim og velji þess í stað að beita ofbeldi og skemmdarverkum. Ef menn fara út fyrir strikið verða þeir einfaldlega að taka afleiðingum gerða sinna sama hvað íslenzkir vinstrimenn segja.

En vinstrimenn hafa að vísu heldur aldrei verið neinir sérstakir áhugamenn um að fólk beri ábyrgð á eigin lífi og gerðum...

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband