Leita í fréttum mbl.is

Hvenær mismunar maður fólki og hvenær ekki?

Formaður Samtaka fiskvinnslu án útgerðar (SFÁÚ), Óskar Þór Karlsson, flutti erindi á síðasta aðalfundi samtakanna. Þar fjallaði hann meðal annars um sjómannaafslátt:  ,,Þetta teljum við jafngilda ríkisstyrk til fiskvinnslu á sjó.  Við höfum því ákveðið nú að gera þá kröfu til ríkisins, og munum fylgja henni eftir af fullum þunga, að þá skuli einnig veittur samskonar skattaafsláttur til verkafólks sem vinnur þessi sömu störf í okkar fyrirtækjum.  Annað teljum við brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.”

Það sem formaðurinn kallar ,,samskonar skattaafsláttur” er sjómannaafslátturinn svokallaði en hann forðaðast að nota það réttnefni enda felst það í hugtakinu að sjómannaafsláttur er ætlaður sjómönnum.  Fullyrðingar Óskars um að það að fiskverkafólk í landi fái ekki sjómannaafslátt þrátt fyrir að sinna að einhverju leyti svipuðum störfum og sjómenn sé brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar styðjast ekki við nein lögfræðileg rök.  Tilvikin eru fullkomlega ósambærileg hvað þetta varðar.  Þau rök sem færð hafa verið fram fyrir sjómannaafslætti er enda ekki þau að vegna eðlis þess starfs að gera að fiski sé nauðsynlegt að fólk sem það gerir greiði lægri skatta.  Rökin (ef einhver) hafa fyrst og fremst falist í því að um hættuleg og mikilvæg störf sé að ræða sem krefjast mikilla fjarvista.  Á sama tíma geta menn ekki nýtt sér ýmsa afþreyingu eða þjónustu ríkisins, sem fjármögnuð er með skattpíningu, í sama mæli og landkrabbar. 

Ég fagna því, út af fyrir sig, að menn séu tilbúnir til þess að skoða það að fólk borgi til ríkisins (ef eitthvað) í réttu hlutfalli við magn þeirrar þjónustu sem það fær frá því.  Þetta getur hinsvegar með engu móti talist fullnægjandi röksemdafærsla þar sem þá er aðeins verið að taka einn þátt fyrir, eina stétt manna.  Hinsvegar væri hægt að segja það um mun fleiri stéttir að þær sinntu sínum störfum mikið fjarri þjónustu ríkisins.  Auk þess eru mælikvarðarnir ófullkomnir, það er fráleitt að fullyrða að allir sjómenn nýti sér þjónustu ríkisins í minna mæli en allir sem vinna í landi.  Enginn vill hinsvegar vera vondur við sjómenn, og því er oft erfitt að taka þessa umræðu.  Staðreyndin er þó sú að afslátturinn er ekki styrkur til sjómanna heldur styrkur til útgerðarmanna.

Mun líklegra er að tilvist sjómannaafsláttarins, sem slíks, sé brot á jafnræðisreglu heldur en sú staðreynd að hann taki ekki til fleiri stétta.  Jafnræðisreglan, 65. gr. stjórnarskrárinnar, er eins og önnur ákvæði stjórnarskrárinnar stutt og skorinort.  “Allir skulu vera jafnir fyrir lögum...”, er í raun það eina sem þar segir sem máli skiptir.  Jafnræðisrök SFÁÚ hníga að því að allir ættu að fá sjómannaafslátt, ekki bara fiskverkafólk.  Þegar svo er komið að allir fá sjómannaafslátt er ekki lengur um skattaafslátt að ræða heldur almenna tekjuskattsprósentu.  Hér er frekar um sérhagsmunapot, með stjórnarskránna að vopni, að ræða heldur en réttlætismál.

Þessi umræða er angi af stærra máli, en æ oftar má heyra menn nota það sem rök fyrir enn meiri mismunun að mismunun sé til staðar.  Einnig eru þau rök notuð fyrir auknum ríkisútgjöldum að ríkið eyði peningum hvort sem er í ýmsa vitleysu.  Af hverju þá ekki að bæta við enn einni mismununinni eða enn einni vitleysunni?  Það sem menn eiga að beita sér fyrir er að slíkri mismunun, eða slíkri fjársóun, linni.

Davíð Þorláksson

(Greinin birtist áður á www.sus.is)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband