Leita í fréttum mbl.is

Á Ísraelsríki að semja við hryðjuverkamenn?

Eins og allir vita er ástandið fyrir botni miðjarahafs verið viðkvæmt síðustu daga. Allt hófst þetta þegar hryðjuverkamenn á vegum Hamas samtakanna réðust á hóp ísraelska hermanna og tóku einn þeirra í gíslingu. Nú hefur það sama gerst en liðsmenn annara illræmdra hryðjuverkasamtaka, Hezbollah, hafa tekið aðra tvo ísraelska hermenn í gíslingu. Ísraelsmenn hafa svarað með hernaðaraðgerðum á stöðvar fyrrnefndra hryðjuverkasamtaka. Þó vill það nú þannig til að helstu stöðvar Hamas samtakanna eru ráðuneyti á heimastjórnarsvæði þjóðar sem vill kenna sig við Palestínu. Einnig má taka fram að samkvæmt könnunum í Palestínu styðja um 80% íbúa svæðisins að Hamas samtökin ræni fleiri hermönnum.

En það er athyglisvert að skoða viðbrögðin við hernaðaraðgerðum Ísraelsmanna. Aðalaáherslan í fjölmiðlun eru ,,harðar” aðgerðir Ísraelsmanna og fleira í þeim dúr.

Til að mynda leyndi sér ekki hlutdrægni NFS þegar flutt var frétt af málinu. Þar segir m.a. um ástandið í Líbanon, ,,Nær allir sem hafa látist eru óbreyttir borgarar og hræðslan er allsráðandi, enda ekkert grín að vita aldrei hvar næsta loftskeyti lendir.”
Hvaða rugl er þetta eiginlega? Þarna eru að eiga sér stað átök sem auðvitað allir vildu óska að væru ekki. En ákvað sá sem skrifaði fréttina fyrir NFS að hræðslan væri allráðandi? Var hann kannski á svæðinu til að finna hræðsluna?

Og áfram heldur það (feitl. mín eigin.):
,,Stjórnvöld í Ísrael telja nóg komið, eins og heimsbyggðin hefur fengið að verða vitni að. Um allan heim kveður þó við sama tón, aðgerðir Ísraela eru allt of harðar. Bæði Jacques Chirac Frakklandsforseti og Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu fordæmdu árásirnar í dag og sögðu þær úr öllu samhengi.
Sem fyrr
eiga Ísraelar þó hauk í horni þar sem Bandaríkjamenn eru. Þeir beittu í gær neitunarvaldi, þegar lögð var fram ályktun innan ráðsins, þess efnis að Ísraelar létu þegar af hernaðaraðgerðum sínum, gegn því að hermennirnir tveir yrðu látnir lausir.”

Það er nokkuð við þetta að athuga. Ég feitletraði sum orðin sjálfur til að leggja áherslu á hvað mér finnst miður við þetta.

En í fyrsta lagi, þá kveður ekki við sama tón um allan heim. Aðeins örfá ríki hafa (eða öllu heldur örfáir þjóðarleiðtogar) hafa fordæmt árásirnar í dag og í gær. Það má vel vera að það sé ósk þess sem skrifaði fréttina að ALLUR heimurinn fordæmdi þær en svo er nú ekki.

Í öðru lagi, þá er ekki nauðsynlegt að segja að Ísraelsmenn eigi hauk í horni ,,þar sem Bandaríkjamenn eru.” Er að eitthvað nýtt að þjóðir skuli lýsa yfir stuðningi við hvor aðra? Þó að það henti ekki fréttamanni NFS þá er það ekki óalgengt. Og af hverju er hvergi minnst á afskipti Írana? Á heimastjórn Palestínu hvergi ,,hauk í horni.” Eða kallast það kannski bara eðlilegur stuðningur?

Í þriðja lagi þá fjallaði ályktun öryggisráðsins ekki um að Ísraelsmenn létu af hernaðaraðgerðum sínum, gegn því að hermennirnir yrðu látnir lausir. Ísraelsk yfirvöld hafa þegar tilkynnt að þau muni hætta aðgerðum ef hermennirnir verða látnir lausir. Það þarf ekki Öryggisráð SÞ til þess. Nei, tillagan fól það í sér að árásirnar yrðu fordæmdar, ekkert annað. Bandaríkjamenn beittu neitunarvaldi sínu. En fréttastofan þarf að fara með rétt mál.

Ekki einfalt mál

En reynum að horfa aðeins rökrétt á hlutina. Á forsætisráðherra Ísraels að sætta sig við það að hermönnum úr her hans sé rænt og þeim hótað lífláti nema hann gangi að kröfum mannræningjanna. Hvernig dettur formanni Ísland-Palestínu að segja að hernaðaraðgerðirnar séu löngu undirbúnar og að mannrán hermannsins sé aðeins tylliástæða fyrir árásunum? Þekkir hann hernaðarstrúktúr Ísraelsmanna? Finnst honum í lagi að Hamas samtökin hafi rænt hermanninum?

Rétt er að minna á að Líbanon hefur ekki staðið við ályktum SÞ númer 1559 sem fjallar um það að ríkisstjórn landsins skuli án tafar reyna að afvopna Hezbollah samtökin. Ekkert hefur verið aðhafst í því. Þau hafa fengið að starfa og hreyfa sig í landinu eins og þau vilja, notað flugvelli, brýr og vegi til að aðhafast og halda uppi starfssemi. Þess vegna eru það þessi mannvirki sem eru skotmörk Ísraelsmanna. Því miður falla óbreyttir borgarar í slíkum átökum.

En hvað gerist ef Ísrael semur við hryðjuverkamenn? Jú, í næstu viku verður fleiri hermönnum rænt í þeirri von að fá fleiri fanga lausa og svo koll af kolli.

Stjórnvöld í Palestínu og Líbanon geta endað þessar aðgerðir strax. Með því að leggja áherslu á að hryðjuverkasamtökin láti hermennina úr haldi og afvopni þau síðan. Það er nú ekki mikið flóknari en það.

Hringlagaháttur Íslands-Palestínu

Félagið Ísland-Palestína lætur ekki bíða lengi eftir sér og auglýsir mótmælafundi (sem reyndar fór mjög lítið fyrir) og sakar Ísraelsmenn um stríðsglæpi og fleira í þeim dúr.

Þannig hefur formaður félagsins skrifað harðorða grein á vef samtakanna sem oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hafa lýst yfir hatri á Ísrael og Ísraelsmönnum. Meðal annars er sérstakur liður á síðunni þar sem fólk er hvatt til að sniðganga ísraelskar vörur. Aftur og aftur horfir félagið framhjá hryðjuverkaaðgerðum Hamas samtakanna og leggur jafnvel blessun sína yfir þau.

Formaður félagsins reynir einnig að gera lítið úr Qassam eldflaugum sem ,,andspyrnuhópar” (eins og hann kallar það) nota til að skjóta á ísraelsk heimili. Þau séu lítil miðað við þróuð vopn Ísraelsmanna og séu aðallega notuð til að hræða og valdi sjaldan manntjóni.
Nú, jæja, þá hlýtur bara að vera í lagi að skjóta slíkum flaugum á heimili fólks. Fyrst þau drepa ekkert mjög marga. Seinna í greininni sakar hann Ísraelsmenn um að hræða almenning á heimastjórnarsvæði Palestínu með því að nota svokallaðar hávaðasprengjur. Auðvitað telur hann slíkt vera alveg hræðilegt. Það má lesa það út úr grein formannsins að það sé í lagi að fólk skjóti Qassam eldflaugum á hús en ekki að Ísraelsmenn noti hávaðasprengjur. Hér er ég ekki einu sinni að reyna að snúa út úr orðum formannsins. Hatur hans á Ísrael og Ísraelsmönnum skín greinilega í gegnum skrif hans.

Af hverju fordæmir félagið ekki mannránin? Af hverju fordæmir félagið aldrei þegar öfgafullir múslimar sprengja sig í loft upp á kaffihúsum eða strætó í Ísrael? Af hverju mótmælir félagið aldrei tilgangi hryðjuverka sem er að drepa sem flesta óbreytta borgara?

Finnst Sveini Rúnari í lagi að fyrrnefndir hryðjuverkahópar hafi ráðist á hermenn Ísraelsmanna, drepið nokkra og rænt öðrum? Ef svo er, af hverju segir hann það ekki bara beint út?

Félagið Ísland-Palestína getur ekki alltaf bent á að Hamas samtökin hafi komist til valda á lýðræðislegan hátt. Auðvitað gerðu þau það og eiga þar með alveg rétt á að vera við völd á heimastjórnarsvæðinu. En það gerir þau ekki að minni hryðjuverkasamtökum að hljóta lýðræðislega kosningu. Það að heilaþvo ung börn til að stunda ,,heilagt stríð” gegn annari þjóð og hvetja þau til að framkvæma sjálfsmorðsárás er auðvitað ekkert annað en hryðjuverk. Þó að þú byggir leikskóla á sama tíma og þú drepur aðra vegur það ekki á móti.

Talar Chirac fyrir alla Evrópu?

Og út í annað en þó þessu tengt. Chirac Frakkalandsforseti hefur fordæmt árásir Ísraelsmanna í Líbanon. Hann segir þær úr samhengi við allt annað og að þær nái ekki nokkurri átt. En orðalag forsetans var skrautlegt, ,,Ég, eins og allir aðrir Evrópubúar, tel að árásirnar séu ekki í nokkru samhengi.” Hvernig dettur manninum í hug að hann tali fyrir alla Evrópubúa? Þetta skiptir svo sem ekki miklu máli núna en gæti orðið athyglisvert síðar þegar Chirac telur sig ætla að tala fyrir alla Evrópubúa.

Maður spyr sig einnig hvernig hann myndi bregðast við ef frönskum hermönnum yrði rænt og þeim haldið í gíslingu? Af orðum hans í dag má dæma að hann myndi lítið aðhagast. Eða gildir það bara um suma?

En svona til að fyrirbyggja allan misskilning þá vil ég nú taka fram að ég vona að núverandi ástand vari ekki lengi. Vonandi heldur her Ísraelsmanna sig að einhverju leyti til hlés og ef ekki þá vona ég að saklausir borgarar verði ekki fyrir árásum. Einnig er vonandi að hryðjuverkamenn láti af starfssemi sinni - en það er hins vegar mjög ólíklegt.

En það sem gerir þessi mál ennþá flóknari er að engin ríki eiga í stríði. Ekkert ríki hefur lýst yfir stríði á annað ríki heldur er Ísraelsher að elta hryðjuverkasamtök yfir landamæri og slíkt er nú ekki algengt. Ef að einhver ríkisstjórn í Mið-Austurlöndum lýsir yfir stríði, s.s. Sýrland, Líbanon eða Íran þá fyrst verða læti. En við skulum vona að ekki komi til þess.

Gísli Freyr Valdórsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband