Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 13. marz 2006

Í Silfri Egils í gær (12. marz) var m.a. rætt um vangaveltur Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem hún viðraði í grein á heimasíðu sinni í síðustu viku þess efnis að hugsanlega væri hægt að taka upp evruna hér á landi og gerast aðilar að Efnahags- og myntbandalagi Evrópusambandsins án þess að ganga í sambandið sjálft. Meðal gesta voru Jónína Bjartmarz, þingmaður Framsóknarflokksins, og Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður okkar sjálfstæðismanna. Einar sagði þessar vangaveltur Valgerðar fráleitar og uppskar í kjölfarið ákúru frá Jónínu á þeim forsendum að hann væri þar með að tala gegn mati okkar helztu sérfræðinga í þessum efnum og nefndi því til staðfestingar til sögunnar Stefán Má Stefánsson, lagaprófessor, og Guðmund Magnússon, hagfræðiprófessor, auk þess sem hún sagði málið til skoðunar hjá Evrópufræðasetrinu á Bifröst.

Ekki veit ég hvað Jónína hefur haft fyrir stafni undanfarna daga en hún hefur allavega nokkuð ljóslega ekki eytt of miklum tíma í að fylgjast með fjölmiðlum, allavega ekki í tengslum við þetta tiltekna mál. Vissulega sagði Stefán Már að hann teldi það mögulegt að taka upp evruna án aðildar að Evrópusambandinu sjálfu, þ.e. lagalega séð, en sagði málið vitanlega ekki sízt vera pólitísks eðlis. Það má líka vel vera að þetta sé til skoðunar á Bifröst, en forstöðumaður Evrópufræðasetursins og klárlega einhver mesti Evrópusambandssinni landsins, Eiríkur Bergmann Einarsson, gaf engu að síður lítið fyrir vangaveltur Valgerðar í viðtali við NFS sl. fimmtudag, það væri einfaldlega ekki hægt að taka upp evruna án aðildar að Evrópusambandinu.

Og sama gerðu ófáir aðrir af þessu tilefni s.s. Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðastofnunar Háskóla Íslands, Peter Dyrberg, forstöðumaður Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík, utanríkisráðherra, fulltrúar bæði Evrópusambandssinna og sjálfstæðissinna sem og Evrópusambandið sjálft þegar sendiherra sambandsins gagnvart Íslandi og Noregi leitaði eftir viðbrögðum frá Brussel við grein Valgerðar. Sumir þessara aðila hafa margoft bent á að Evrópusambandsaðild væri forsenda þess að hægt væri að taka upp evruna hér á landi til viðbótar við marga aðra. Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi seðlabankastjóri, hefur þannig t.a.m. margoft bent á þetta, síðast í setningarræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sl. haust. Og um svipað leyti sagði Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri, í ræðu á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda að það væri tómt mál að tala um að taka upp evru án aðildar að Evrópusambandinu.

Þannig að ég veit ekki hvað Jónína var eiginlega að tala um þegar hún sagði Einar Odd tala gegn helztu sérfræðingum okkar í þessum málum. Hún sem þó situr í Evrópustefnunefnd forsætisráðuneytisins og ætti því að fylgjast sæmilega með þessum málum hefði maður haldið. Tja, nema þetta sé til marks um að íslenzkir Evrópusambandssinna séu orðnir svo slæmir á taugum að þeir telji ekki bara að sjónarmið þeirra, sem andsnúnir eru aðild að Evrópusambandinu, ekki gjaldgeng í umræðunni um Evrópumál hér á landi heldur að sama gildi einnig um álit sérfræðinga sem eru þeim ekki hagstæð?

Í sjálfu sér kæmi það manni ekki á óvart. Íslenzkir Evrópusambandssinnar, þ.e. forystumenn þeirra, virðast verða örvæntingarfullari með hverjum deginum. Birtingarmynd þess er þó mismunandi eftir einstaklingum eins og gengur og gerist. Sumir eru að því er virðist alveg hættir að tjá sig um Evrópumálin, allavega að fyrrabragði, á meðan aðrir koma með arfavitlaus og örvæntingarfull útspil eins og Valgerður í síðustu viku og Halldór Ásgrímsson í byrjun febrúar. Já eða bara Jónína Bjartmarz í Silfri Egils í gær. Samhliða því er síðan gjarnan kvartað sáran yfir tilfinnanlegum skorti á umræðum um málaflokkinn hér á landi - þ.e.a.s. frá þeirra eigin hlið.

Annars sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar sem einnig var á meðal gesta Egils, orðrétt í umræðunum um vangaveltur Valgerðar: „Evran er stærsti kosturinn við aðild að ESB, það liggur alveg ljóst fyrir." Ég segi nú bara að ef evran er stærsti kostur Evrópusambandsaðildar þá býð ég ekki mikið í hina “kostina”.

---

Annars rakst ég á stórmerkilega frétt á vef Ríkisúrvarpsins á laugardaginn þess efnis að Pólverjar á Íslandi væru orðnir svo fjölmennir að það hamlaði aðlögun þeirra að íslenzku samfélagi. Ég satt að segja hélt ekki að ástandið væri orðið svo alvarlegt strax. Sú sem þetta segir er pólsk kona að nafni Barbara Gunnlaugsson sem búið hefur hér á landi í tólf ár. Í samtali við Ríkisútvarpið sagði hún þetta einkum stafa af því að lítið ýtti á Pólverjana að læra íslenzku og aðlagast samfélaginu, þeir þyrftu í raun ekki mikið að leita út fyrir eigin hóp. Þarna er auðvitað um alvarlegt mál að ræða ef satt reynist sem er allrar athygli vert. Það er ljótt ef við Íslendingar ætlum að feta sömu leið og nágrannaþjóðir okkar hafa gert á liðnum árum og áratugum og lent í miklum ógöngum vegna.

---

Að lokum vil ég lýsa yfir fullum stuðningi við skrif Hlyns Jónssonar, formanns Ungra frjálshyggjumanna, og fleiri á undanförnum dögum sem gagnrýnt hafa fóstureyðingar - sem réttast væri að nefna fósturdeyðingar, enda felur sá gjörningur sannarlega í sér að verið sé að deyða manneskju en ekki einhvern hliðstæðan verknað og meindýraeyðingu eða annað slíkt. Hugtakið, sem til þessa hefur lengst af verið notað, er þannig í engu samræmi við alvarleika þess verknaðar sem fósturdeyðing sannarlega er.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband