Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 27. febrúar 2006

Nýverið voru birtar niðurstöður skoðanakönnunar í Bretlandi sem komu mörgum í opna skjöldu. Könnunin var gerð fyrir brezka dagblaðið Sunday Telegraph, en samkvæmt henni vilja fjórir af hverjum tíu brezkum múslimum að Sharia-lögin verði tekin í gildi á svæðum í Bretlandi þar sem múslimar eru í miklum meirihluta á meðan 41% þeirra sögðust því andvígir. Í september á síðasta ári ákvað forsætisráðherra Ontario-fylkis í Kanada, Dalton McGuinty, að verða ekki við óskum um að múslimum yrði heimilað að nota Sharia-lögin til að leysa úr fjölskyldudeilum eins og skilnuðum og forsjá barna á þeim forsendum að það ættu ein lög að gilda um alla íbúa fylkisins.

Sharia-lögin eru í gildi víða í miðausturlöndum, í löndum eins og Íran og Sádi Arabíu, og í Afríku. Lögunum er allajafna framfylgt af trúarlögreglu og sérstakir dómstólar sjá um að dæma samkvæmt þeim og eru refsingarnar gjarnan grimmilegar. Refsingar fyrir kynferðisglæpi eru m.a. grýting, fyrir þjófnað aflimun og það að segja skilið við íslam getur leitt til dauðarefsingar. Lögin innihalda einnig nákvæmar reglur fyrir svo að segja allt sem fólk gerir í lífi sínu og eru þau samin upp úr Kóraninum og Hadith auk dóma múslimskra dómara á fyrstu öldum íslam.

En Sharia-lögin innihalda fleira, t.a.m. ákvæði sem heimilar karlmönnum að eiga margar konur og sem segja að konur séu óæðri karlmönnum. Karlmenn geta t.d. skilið við konur einfaldlega með því að segja þrisvar sinnum „Ég skil við þig“ og framburður kvenna er metinn minna en framburður karlmanna. Konur geta auk þess ekki gifst karlmanni sem er ekki múslimi á meðan múslimskum karlmönnum er heimilt að kvænast konum sem eru ekki múslimar.

Lögin kveða einnig á um ákveðnar reglur um klæðnað bæði karlmanna og kvenna þó reglurnar sem karlmönnum er ætlað að fara eftir séu mun frjálslyndari. Konur eiga að hylja allan líkama sinn og þar með talið hár sitt og líkamsbyggingu sína. Aðeins andlit og hendur mega sjást. Stundum er reyndar óheimilt að meira sjáist af andliti en augun. Slík ákvæði brjóta augljóslega gróflega í bága við vestrænar hugmyndir og lög um einstaklingsfrelsi og jafnrétti. En það eru einmitt ákvæði sem þessi sem íslamskir trúarleiðtogar, bæði í löndum múslima sem og á Vesturlöndum, leggja hvað mesta áherzlu á að slá skjaldborg um og verja gegn hvers kyns vestrænum áhrifum.

Á dögunum kallaði fjármálaráherra Ástralíu, Peter Costello sem er talinn munu verða arftaki John Howards forsætisráðherra landsins á valdastóli, eftir því að ríkisborgararéttur öfgasinnaðra múslima, sem fyrirlitu áströlsk gildi og hefðu tvöfalt ríkisfang, yrði afturkallaður. Sagði hann að slíkir aðilar væru betur komnir í löndum þar sem þeir kynnu betur við sig. Að sama tilefni sagði Costello að fjölmenningarstefnan væri „væmin og afvegaleidd“ og krafðist þess að nýjir ástralskir ríkisborgarar færu að áströlskum lögum í stað þes að reyna að fara framhjá þeim og lifa þess í stað samkvæmt lögum eins og Sharia-lögunum. Hann sagði það til marks um virðingu á sama hátt og þegar farið væri úr skónum áður en gengið væri inn í mosku væri það gert af tillitsemi við íslam. „Ef þú ert mjög mótfallinn því að ganga á sokkaleistunum þá ferðu ekki inn í mosku,“ sagði Costello í ræðu í Sydney. „Ef þú ert mjög mótfallinn áströlskum gildum, slepptu því þá að koma til Ástralíu.“

Leiðtogar ástralskra múslima hafa gagnrýnt Costello harðlega og samhliða því kvartað undan meintum fjandskap áströlsku hægristjórnarinnar við múslima. Howard forsætisráðherra hefur hins vegar lýst yfir stuðningi við ummæli Costello og sagt að þau væru „í grundvallaratriðum rétt“ og samhliða því gagnrýnt leiðtoga múslima fyrir að vera of viðkvæma fyrir gagnrýni. „Hann er ekki að reyna að stofna til neins fjandskapar við múslima,“ sagði Howard í útvarpsviðtali og sagði óþarfa að gera úlfalda úr mýflugu þó verið væri að ræða þessi mál.

Norska mannréttindahugveitan Human Rights Service (HRS) varaði nýverið við því að gerðar væru málamiðlanir við íslamista og var tilefnið teikningamálið svokallað. „Það er hyldýpi á milli lýðræðislegs samfélags og íslamismans sem alræðissinnaðrar hugmyndafræði sem á sem slík samleið með fasisma, kommúnisma og nasisma. Sem dæmi um það hvernig þessar hugmyndafræðir tengjast má nefna niðrandi afstöðu íslamista gagnvart gyðingum, það að þeir líti á sig sem æðra fólk og að þeir vilji kollvarpa lýðræðinu,“ sagði Hege Storhaug frá HRS í viðtali við norska dagblaðið Klassekampen.

Að mati Storhaug hefur aukin umræða um íslam leitt til þess að línurnar hafa skýrst og sýnt betur hvaða múslimar séu íslamistar og hverjir séu tilbúnir að ver’a hluti af lýðræðislegu samfélagi. Hún sagðist finnast hræðilegt að sjá múslimskar konur í Noregi klæðast burqa í samræmi við ákvæði Sharia-laganna um klæðnað kvenna sem væri eitthvað sem ætti enga samleið með lýðræðinu. Hún sagðist einnig hafa miklar áhyggjur af afstöðu íslamista til samkynhneiðgra, en að þeirra mati væri samkynhneigð dauðasök. „Ég myndi gjarnan vilja sjá þann múslimska trúarleiðtoga sem myndi segja að Sharia-lögin yrðu ekki ráðandi í Noregi ef múslimar kæmust hér í meirihluta,“ sagði hún að lokum.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband