Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 20. febrúar 2006

Abu Laban

„Það er kaldhæðni örlaganna að ég skuli í dag búa í evrópsku lýðræðisríki og vera að berjast gegn sömu trúaröfgamönnunum sem ég flýði frá í Íran fyrir mörgum árum,“ sagði Kamran Tahmasebi í viðtali við danska dagblaðið Jótlandspóstinn á dögunum, en hann kom til Danmerkur árið 1989 sem flóttamaður. Í dag starfar hann sem félagsráðgjafi og er mjög þakklátur fyrir það líf sem danskt samfélag hefur gert honum kleift að lifa. Hann hefur hins vegar fengið sig fullsaddan af öfgasinnuðum íslamistum og þeirri hræðslu sem þeir breiða út á meðal múslima í Danmörku. Og hann hefur líka fengið nóg af því að þegja til þess að vekja ekki athygli íslamistanna á sér. Teikningamálið svokallað (sem flestir ættu að kannast við í dag) gaf honum tilefni til að stíga fram og vara við öfgasinnuðum múslimskum trúarleiðtogum í Danmörku sem hann segir að skaði aðlögun múslima með blekkjandi gagnrýni sinni á danskt samfélag.

Tahmasebi er einn þeirra sem hefur gengið til liðs við nýstofnaða hreyfingu hófsamra múslima í Danmörku sem Naser Khader, þingmaður á danska þjóðþinginu, veitir forystu. Hann sagði við Jótlandspóstinn að hann væri vel meðvitaður um þá hættu sem hann væri að bjóða heim með því að taka sér stöðu við hlið Khaders sem hefur um langt skeið þurft að búa við lögregluvernd vegna gagnrýni sinnar á múslimska trúarleiðtoga í Danmörku. En Tahmasebi sagðist engu að síður telja það skyldu sína að taka þátt í þessari baráttu. „Naser Khader hefur alltof lengi þurft að bera þessa ábyrgð einn. Ég er sammála honum og nú vil ég standa upp og segja það. Þess utan tel ég mig bera ábyrgð sem foreldri til að berjast svo að börnin mín þurfi ekki að búa við kreddur íslamista. Þau skulu fá að lifa frjáls í þessu landi,“ sagði hann í viðtalinu og bætti því við að hann teldi múslimska trúarleiðtoga í Danmörku vera stærsta vandamálið sem Danir stæðu frammi fyrir í dag.

Naser Khader sagði þetta nýverið í viðtali við Jótlandspóstinn: „Ef þessum trúarleiðtogum finnst svona hræðilegt að búa í Danmörku, hvers vegna eru þeir þá hér? Það er einu sinni enginn að neyða þá til að búa hér. Þeir geta alltaf flutt til einhvers af löndunum í miðausturlöndum þar sem samfélögin eru byggð á þeim múslimsku gildum sem þeir vilja endilega lífa eftir. Það virðist sem hollusta þeirra sé aðallega við lönd eins og Sádi Arabíu, þannig að ég held að þeir ættu að flytja þangað. Ég er orðinn svo þreyttur á að heyra þá kvarta yfir ástandinu í þessu landi [Danmörku] sem hefur veitt þeim skjól, tjáningarfrelsi, trúfrelsi og fjölda tækifæra fyrir börnin þeirra. Ef þeir geta ekki sýnt gildum þessa lands hollustu þá ættu þeir að fara og gera þar með meirihluta danskra múslima mikinn greiða. Trúarleiðtogarnir ættu að hætta að gagnrýna teikningarnar og í stað þess gagnrýna hryðjuverkamennina sem skera saklausa gísla á háls í nafni Allah og misnota þannig íslam. En í slíkum tilfellum heyrum við ekki stakt orð frá þeim. Fyrir vikið eru þeir hræsnarar.“

Fólk hefur bókstaflega streymt til liðs við hreyfingu hófsamra danskra múslima sem fengið hefur nafnið Lýðræðissinnaðir múslimar (Demokratiske Muslimer). Fleiri hundruð manns hafa þegar skráð sig sem meðlimi og að auki hafa hátt í þrjú þúsund Danir lýst yfir stuðningi við framtakið sem hefur þegar valdið miklum titringi á meðal múslimskra trúarleiðtoga í Danmörku. Leiðtogi þeirra, Abu Laban, kallaði hófsömu múslimana nýverið rottur. Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, hitti forystumenn Lýðræðissinnaðra múslima á dögunum þar sem rætt var um teikningamálið. Áður höfðu dönsk stjórnvöld tilkynnt að þau væru hætt öllu samstarfi við múslimska trúarleiðtoga í Danmörku um aðlögun múslima að dönsku samfélagi vegna framferðis þeirra í tengslum við teikningamálið þar sem þeir m.a. sendu sendinefndir til miðausturlanda í því skyni að æsa upp hatur gegn Danmörku og Dönum.

Því til viðbótar hafa umræddir múslimsku trúarleiðtogar gerzt sekir umtala tveimur tungum í tengslum við teikningamálið og þannig sagt eitt við vestræna fjölmiðla en síðan nákvæmtlega það gagnstæða við fjölmiðla í múslimaríkjum. Í vestrænum fjölmiðlum hafa þeir kallað eftir því að reynt yrði að draga úr spennunni í málinu en á sama tíma haldið áfram að æsa upp hatur gegn Danmörku og öðrum vestrænum ríkjum í viðtölum við arabíska fjölmiðla. Þannig sagði áðurnefndur Abu Laban við dönsku sjónvarpsstöðina TV2 að hann hvetti múslima um allan heim að hætta að sniðganga danskar vörur, en sagði síðan við arabísku sjónvarpsstöðina Al-Jazeera að sniðganga múslima á dönskum vörum væri ánægjuleg. Trúarleiðtoginn Abu Bashar sagði við Jótlandspóstinn að teinkningamálið væri eingöngu mál á milli múslima og dagblaðsins en ekki á milli múslima og danskra stjórnvalda. Í samtali við dagblaðið Al Watan í Sádi Arabíu gagnrýndi hann hins vegar dönsku ríkisstjórnina harðlega fyrir að hafa ekki beðist afsökunar á teikningunum. Trúarleiðtoginn Mahmoud Fouad Al-Barazi sagði á fundi með Anders Fogh Rasmussen að hann vildi stuðla að betri aðlögun múslima í Danmörku, en gagrýndi síðan m.a. danska leikskóla í viðtali við egypska dagblaðið Al Ahram fyrir að kenna múslimskum börnum um danska menningu.

„Við viljum að dagblaðið [Jótlandspósturinn sem fyrst birti hinar umdeildu teikningar af Múhameð spámanni múslima í september sl.] heiti því að þetta muni aldrei gerast aftur, eða þetta mun aldrei enda.“ Þessu hótaði Ahmad Akkari, talsmaður múslimsku trúarleiðtoganna, í samtali við BBC. Að mati ráðherra innflytjendamála í dönsku ríkisstjórninni, Rikke Hvilshøj, hringja ummæli sem þessi viðvörunarbjöllum: „Það er alveg ljóst að við getum ekki treyst trúarleiðtogunum lengur ef við viljum að aðlögunin í Danmörku skili árangri,“ sagði hún nýverið.

Öfgasinnaðir múslimskir trúarleiðtogar eru annars víðar vandamál en í Danmörku. Á dögunum fagnaði Hamid Ali, sem er klerkur við moskuna í West Yorkshire í Englandi, hryðjuverkaárásunum á London sl. sumar (þar sem 56 manns létu lífið). Sagði hann þær hafa verið „af hinu góða“ í samtali við blaðamann brezka dagblaðsins Sunday Times sem villti á sér heimildir og tók samtalið upp. Þessi yfirlýsing gengur þvert á opinberar yfirlýsingar leiðtoga múslima í Bretlandi – þ.á.m. Hamid Alis – eftir hryðjuverkin þar sem þeir fordæmdu þau. Að vísu þótti sú yfirlýsing að margra mati koma nokkuð seint og aðeins eftir að margir höfðu ítrekað gagnrýnt múslimaleiðtogana fyrir að hafa ekki fordæmt hryðjuverkin.

Það er því greinilega víðar sem múslimskir trúarleiðtogar tala tveimur tungum en eingöngu í Danmörku.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

Hér fyrir neðan sést mynd af pakistönskum konum mótmæla teikningunum af Múhameð í Islamabad í síðustu viku. Það virðast engin takmörk fyrir því hversu djúpt sumir eru greinilega tilbúnir að sökkva í mótmælum sínum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband